Ný kynjajafnréttisstefna Evrópuráðsins tekur mið af skuldbindingum Reykjavíkurfundar Evrópuráðsins

Kynjajafnréttisstefna fyrir árin 2024 til 2029 var samþykkt á fundi ráðherranefndar Evrópuráðsins þann 6. mars 2024 og byggir á skuldbindingum aðildaríkja Evrópuráðsins, tilmælum og leiðbeiningum varðandi kynjajafnréttismál. Kynjajafnréttisstefnan hefur tekið gildi og verður sérstaklega kynnt á ráðstefnu sem haldin er í tengslum við formennskutímabil Litháen, í Strassborg 30. maí næstkomandi.  

Í upphafi stefnunnar er vísað til ályktunar leiðtogafundar Evrópuráðsins sem haldinn var í Reykjavík dagana 16. til 17. maí 2023. Þar segir:

„… jafnrétti kynjanna og full, jöfn og skilvirk þátttaka kvenna í opinberum og ákvarðanatökuferlum er nauðsynleg fyrir réttarríkið, lýðræði og sjálfbæra þróun. Við leggjum áherslu á brautryðjendahlutverk Evrópuráðsins, meðal annars í gegnum Istanbúlsamninginn, í baráttunni gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi.“

Kynjajafnréttisstefnan var unnin í Jafnréttisnefnd Evrópuráðsins og á Jafnréttisskrifstofu Evrópuráðsins árin 2022 og 2023 og leggur til grundvallar eftirfarandi níu viðmið vegna markmiða aðildaríkjanna í jafnréttismálum:

I. Jafnrétti er kjarni lýðræðis: Til að viðhalda nauðsynlegu og starfhæfu lýðræði verður að tryggja að allir einstaklingar njóti jafns réttar, sýnileika og þátttöku á öllum sviðum samfélagsins. Það er lykilhlutverk Evrópuráðsins að vernda mannréttindi og viðhalda lýðræði meðal aðildarríkja.

II. Viðvarandi gjá jafnréttis: Þrátt fyrir lagalegar úrbætur fyrir konur í Evrópu er raunverulegt jafnrétti kynjanna enn fjarlægt. Verulegur kynjamunur og hindranir eru enn til staðar og hafa áhrif á þátttöku í stjórnmálum og viðskiptum ásamt því að viðhalda ofbeldi gegn konum.

III. Réttindum er ógnað: Framfarir í jafnréttismálum standa frammi fyrir ógnum frá andlýðræðislegum hreyfingum sem miða að því að takmarka aðgang kvenna að heilbrigðisþjónustu og réttindum, með því að grafa undan skilgreiningum á kyngervi sem félagslegri hugsmíð og vinna gegn jafnrétti kynjanna.

IV. Kynjajafnrétti er forsenda mannréttinda: Jafnrétti kynjanna eru mikilvæg til að viðhalda mannréttindum og félagslegu réttlæti í samfélögum. Vinnan krefst samræmdra aðgerða til að standa vörð gegn áhrifum rangra upplýsinga og koma á framfæri upplýsingum jákvæð áhrif kynjajafnréttis.

V. Kynjajafnrétti krefst þátttöku karla: Karlar jafnt sem konur njóta góðs af auknu kynjajafnrétti. Nauðsynlegt er að vinna gegn neikvæðum áhrifum staðalímynda um hlutverk kynjanna og vinna gegn hugmyndum sem réttlæta kynbundið misrétti og ofbeldi gegn konum.

VI. Vaxandi óréttlæti og aukin ójöfnuður vinnur gegn kynjajafnrétti: Efnahagslegar og félagslegar krísur, eins og afleiðingar Covid-19 heimsfaraldursins og stríðsátök, undirstrika nauðsyn þess að vinna gegn kynjamisrétti. Þannig tryggjum við félagslegt og efnahagslegt sjálfstæði kvenna og berjumst gegn kynbundnu ofbeldi.

VII. Framsýni og fyrirmyndir í samþykktum Evrópuráðsins: Mannréttindasáttmáli Evrópu, Félagsmálasáttmáli Evrópuráðsins og Istanbulsáttmálinn leggja grunn að markvissu starfi aðildarríkjanna á sviðum mannréttinda og í jafnréttisstarfi.

VIII. Samþætting kynjasjónarmiða: Stefnan leggur til aðgerðir, þar á meðal sértækar aðgerðir þar sem við á, á sviðum sem eru mikilvæg fyrir framgang kvenna til að tryggja jafnrétti. Aðgerðum verði fylgt eftir með samræmdu eftirliti á mörgum sviðum jafnréttismála samtímis, þar sem samþætting kynjasjónarmiða liggur til grundavalar.

IX. Kynjajafnréttisstefnan er sameiginleg kerfisbundin stefnumörkun: Jafnréttisáætlunin veitir skipulagða áætlun til að efla jafnrétti kynjanna og réttindi kvenna frá 2024 til 2029, þar sem fram koma helstu stefnumarkmið og aðgerðir.

Í nýrri áætlun er gerð grein fyrir markmiðum og áherslum Evrópuráðsins í jafnréttismálum fyrir árin 2024 til 2029, starfsaðferðir og helstu samstarfsaðilar skilgreindir, auk þeirra aðgerða sem þarf til að auka sýnileika árangurs. Auk samþykktra viðmiða sem liggja til grundvallar Kynjajafnréttisstefnunni verður áhersla lögð á að ná árangri á eftirfarandi sviðum, sérstaklega:

Að koma í veg fyrir og berjast gegn kynjamisrétti og kynferðislegri mismunun.

Að koma í veg fyrir og berjast gegn ofbeldi gegn konum og stúlkum og heimilisofbeldi.

tryggja jafnan aðgang karla og kvenna að úrræðum réttarkerfa og vinna að kynjajafnrétti í réttarvörslukerfum aðildarríkjanna.

vinna að jafnri þátttöku kvenna og karla í stjórnmálum, opinberu lífi og í félagslegu og efnahagslegu lífi borgara.

tryggja valdeflingu kvenna og kynjajafnrétti í tengslum við alþjóðlegar áskoranir.

innleiða samþættingu kynjasjónarmiða og tryggja sjónarmið inngildingar í stefnumótun og aðgerðir.


Tryggvi Hallgrímsson sérfræðingur á Jafnréttisstofu vann að undirbúningi stefnunnar og starfaði á Jafnréttiskrifstofu Evrópuráðsins á árunum 2022-2023. Tryggvi situr nú sem fulltrúi Íslands í Jafnréttisnefnd Evrópuráðsins.