- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Jafnréttisstofa tekur alla jafna þátt í ýmsum samstarfsverkefnum innanlands og utan.
Jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum
Jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum var samstarfsverkefni ráðuneytis jafnréttismála, Jafnréttisstofu, Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðarkaupstaðar, Akureyrarbæjar, Mosfellsbæjar og Kópavogsbæjar með það að markmiði að auka og efla jafnréttis- og kynjasjónarmið í leikskólum og grunnskólum.
Lokaskýrsla þróunarverkefnisins Jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum var kynnt í mennta- og menningamálaráðuneytinu 19. mars 2010 að viðstöddu fjölmenni. Katrín Jakobsdóttir þáverandi menntamálaráðherra, ávarpaði samkomuna og sagði mikilvægt að sérstaklega yrði hugað að jafnréttisstarfi í skólum, hér væri því ekki verið að kynna lokaskýrslu heldur áfangaskýrslu.
Samantekið má segja að verkefnið hafi styrkt viðhorf nemenda sem þátt tóku í verkefnum grunnskólanna ef frá eru talin viðhorf til verkaskiptinga hjóna á heimili. Stelpurnar voru almennt jafnréttissinnaðri en strákarnir og viðhorf nemenda til jafnréttis voru breytileg eftir skólum.
Í ljós kom að verulega skortir á kynjafræðiþekkingu kennara en forsenda markvissrar jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum eru vel menntaðir kennarar á þessu sviði. Kynjafræðin þarf að vera skyldunámsgrein í kennaramenntun og koma sterkar inn í endurmenntun kennara.
Brýnt er að menntamálaráðuneytið axli sína ábyrgð og sinni eftirlits- og ráðgjafarhlutverki sínu. Gera þarf faglega úttekt á jafnréttisfræðslu í skólum en vitað er að víða í skólakerfinu er mikið verk að vinna við mótun jafnréttisstefnu í samræmi við lög og opinber markmið. Skólayfirvöld sveitarfélaganna þurfa líka að sinna sínum skyldum og styðja skólana við jafnréttisfræðsluna.
Jafnréttisstofa hlaut styrk úr áætlun Evrópusambandsins um réttindi, jafnrétti og borgararétt til að standa straum af verkefninu Byggjum brýr Brjótum múra – Samvinna í heimilisofbeldismálum. Verkefnið var unnið í samstarfi við dómsmálaráðuneytið, velferðarráðuneytið, Ríkislögreglustjóra, Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, Lögregluna á Norðurlandi eystra, Lögregluna á Suðurnesjum, Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ.
Megininntak verkefnisins var að miðla reynslu af aðferðum sem hafa skilað árangri í baráttunni gegn ofbeldi í náunum samböndum, mynda tengsl á milli aðila, bjóða upp á fræðslu og standa að vitundarvakningu fyrir alla landsmenn. Vitundarvakningin bar titilinn Þú átt VON og er þar lögð áhersla á að sýna þolendum ofbeldis að það er von á betra lífi. Í vitundarvakningunni er lögð áhersla á að draga fram reynslu þolenda og gerenda á að komast út úr aðstæðunum með stuðningi fagfólks og sýnd sú fjölbreytta þjónusta sem stendur fólki til boða.
Hér var því ekki um nýja þjónustu við brotaþola og gerendur að ræða heldur var leitast við að efla þau úrræði sem þegar eru til staðar auk þess að styrkja þekkingu og færni fagaðila í að greina ofbeldi. Einnig var lögð áhersla á að gera úrræðin sýnileg í samfélaginu. Verkefnið náði til alls landsins en landinu var skipt upp eftir lögregluumdæmum og var verklag ríkislögreglustjóra í heimilisofbeldismálum grunnurinn að samstarfi fagfólks innan hvers svæðis. Sérstök áhersla var lögð á viðkvæma hópa en samkvæmt rannsóknum eru þeir einkum konur af erlendum uppruna, konur með fötlun og konur sem eiga von á barni.
Þetta verkefni var styrkt af áætlun Evrópusambandsins um réttindi, jafnrétti og borgararétt (Rights, Equality and Citizenship Programme 2014-2020). Efni þessara vefs er birt á ábyrgð Jafnréttisstofu og endurspeglar ekki afstöðu eða skoðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Lokaskýrslu verkefnisins má lesa hér.
Konur gára vatnið - Women making waves
Efling á leiðtogafærni kvenna: handbók fyrir stefnumótendur.
Verkefninu „Konur gára vatnið“ (e. Women Making Waves) er ætlað að styrkja leiðtogahæfileika kvenna sem búa við tvíþætta mismunun og efla sjálfstraust þeirra auk þess að vekja enn frekari athygli á kynjahalla í leiðtogastöðum á vinnumarkaði.
Konur sem búa við tvíþætta mismunun (feta ekki menntaveginn, eru atvinnulausar, af erlendum uppruna, með fötlun, búsettar í dreifbýli, að koma inn á vinnumarkað eftir hlé, að sækjast eftir nýjum atvinnutækifærum o.s.frv.) standa frammi fyrir meiri hindrunum en karlar í sömu stöðu. Þessar hindranir felast til dæmis í viðteknum staðalímyndum um hæfni þeirra og getu, skorti á fyrirmyndum og þjálfun og gjarnan er vísað til fjölskylduábyrgðar og lítillar stjórnunarreynslu.
Einn af lykilþáttum verkefnisins felst í því að þátttakendur fá ekki einungis fræðilega þekkingu á kynjakerfinu og mismunun byggða á tilvist þess, heldur fá þar að auki hagnýt verkfæri til að vinna gegn slíkri mismunun (t.d. samskiptahæfni). Þessi mismunun er ekki á ábyrgð kvenna heldur kynjakerfisins sem mótar og viðheldur kynbundnu misrétti.
Þátttakendur fá tækifæri til að ígrunda sína reynslu af náminu og deila sínum hugmyndum með öðrum þátttakendum. Þátttakendur hafa aðgang að námsefninu á netinu í gegnum svokallaða akademíu verkefnisins.
„Konur gára vatnið“ mun ekki aðeins næra stjórnunareiginleika kvenna og valdefla þær til að taka að sér leiðtogastöður, heldur mun það einnig nýta hvert tækifæri til að vekja þær til umhugsunar um of lágt hlutfall kvenna í leiðtogastöðum.
Verkefnið mun hafa tvíþætt hlutverk og stuðla að sjálfbærni:
Heimasíða verkefnisins: https://womenmakingwaves.eu/
Fréttir tengdar verkefninu:
Konur gára vatnið - fjarnámskeið heppnuðust vel
Raddir kvenna í fjórum löndum
Fréttabréf 4 - Konur gára vatnið
Diversity Inside Out
Heiti verkefnis: Diversity Inside Out - Voices from Inside Organisations Foster Change
Samstarfsverkefni um mikilvægi fjölbreytileika á vinnumarkaði. Verkefnið er unnið í samstarfi við Inova Aspire í Hollandi.
Í verkefninu verður lögð áhersla á mikilvægi fjölbreytileika á vinnumarkaði og hvernig stjórnendur, mannauðsstjórar, starfsfólk og ráðgjafar innan fyrirtækja, stofnana og félaga, geta virkjað fjölbreytileika innan skipulagsheilda starfseminni í hag. Litið verður til mismunandi áhrifa Covid-19 og aukinnar fjarvinnu á vinnuveitendur og starfsfólk og hvernig koma má í veg fyrir neikvæð áhrif á fjölbreytileika og framgang mismunandi hópa í starfi.
Jafnréttisstofa hefur frá árinu 2018 haft umsjón og eftirlit með framkvæmd laga nr. 85/2018 um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, og lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði. Verkefni þetta er liður í viðleitni Jafnréttisstofu að veita fræðslu og efla þekkingu og getu stofnunarinnar til að sinna skyldum sínum.
Kennsluefni
Fréttir tengdar efninu:
Jafnréttisstofa hlaut styrk fyrir verkefni um mikilvægi fjölbreytileika á vinnumarkaði
Fjölbreytileiki styrkir íslenskt atvinnulíf
1. fréttabréf - Fjölbreytni í fyrirrúmi
1st Newsletter of Diversity Inside Out
2. fréttabréf - Fjölbreytni í fyrirrúmi
2nd Newsletter of Diversity Inside Out
3. fréttabréf - Fjölbreytni í fyrirrúmi
3rd Newsletter of Diversity Inside Out
Verkefninu Fjölbreytni í fyrirrúmi miðar áfram
Kennsla á prufunámskeiðum gekk vel
Síðasta fundi samstarfsaðila í Evrópuverkefninu Fjölbreytni í fyrirrúmi er lokið