Evrópusáttmáli um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum og héruðum

Samband íslenskra sveitarfélaga, ráðuneyti jafnréttismála og Jafnréttisstofa tóku höndum saman um að láta þýða Evrópusáttmála um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum. Sáttmálinn var kynntur fyrir sveitarfélögum í maí 2008 og í kjölfarið undirrituðu Akranes, Akureyri, Mosfellsbær, Reykjavíkurborg og Hafnarfjörður sáttmálann.

Evrópusáttmáli um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum er gefinn út af Evrópusamtökum sveitarfélaga (CEMR) sem Samband íslenskra sveitarfélaga er aðili að. Fjöldi fólks lagði hönd á plóg við gerð sáttmálans, þ.e. kjörnir fulltrúar og starfsmenn sveitarfélaga, sérfræðingar um jafnréttismál og margir fleiri, en verkefnið var styrkt af Evrópusambandinu.

Í júní 2009 höfðu 874 sveitarfélög, af öllum stærðum og gerðum, vítt og breitt um Evrópu, undirritað sáttmálann og stöðugt fleiri bætast í hópinn.  Sáttmálinn er bæði hentugt tæki fyrir sveitarfélög í löndum þar sem jafnréttisumræðan er skammt á veg komin, eins og til dæmis víða í Austur-Evrópu, en einnig í löndum þar sem hún er lengra komin, svo sem á Norðurlöndunum. Sáttmálinn er yfirgripsmikill og skiptist í eftirfarandi kafla: 

  • Almennur rammi um jafna stöðu kvenna og karla
  • Hið pólitíska svið
  • Sveitarfélagið sem vinnuveitandi
  • Opinber innkaup og samningar
  • Sveitarfélagið sem þjónustuveitandi
  • Skipulagsmál
  • Sveitarfélagið sem eftirlitsaðili
  • Samstarf við önnur sveitarfélög innanlands og utan

 
Margt af því sem tiltekið er í sáttmálanum er þegar fyrir hendi í íslenskum sveitarfélögum enda bundið í lög á Íslandi, en annað er nýtt og athyglisvert og skapar sóknarfæri fyrir sveitarfélögin á þessu sviði. Í sáttmálanum er kveðið á um að þau sveitarfélög sem undirrita hann skuldbindi sig til að gera jafnréttisáætlun (aðgerðaáætlun) um helstu forgangsmál og hvernig þau ætli að ná árangri á þeim sviðum. Á framangreindri ráðstefnu kynnti CEMR drög að leiðbeiningum um gerð slíkra áætlana auk þess sem kynntar voru aðgerðaáætlanir nokkurra sveitarfélaga.

Hér má lesa Evrópusáttmálann um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum og héruðum