- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Í mars árið 2010 samþykkti Alþingi frumvarp þess efnis að bæði konur og karlar skuli eiga fulltrúa í stjórn einkahlutafélaga og hlutafélaga (Lög um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög nr.2/1995) þar sem fleiri en 50 starfsmenn starfa að jafnaði þegar stjórn er skipuð þremur mönnum, og þegar stjórnarmenn eru fleiri en þrír skal tryggt að hlutfall hvors kyns fyrir sig sé ekki lægra en 40%.
Í maí 2011 samþykkti Alþingi sambærileg lög um kynjakvóta í stjórnum lífeyrissjóða (Lög um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum nr. 122/2011).
Þann 1. september 2013 tóku þessi lög gildi og eiga við um alla lífeyrissjóði, hlutafélög, einkahlutafélög, samlagshlutafélög og opinber hlutafélög þar sem starfa fleiri en 50 starfsmenn á ársgrundvelli. Fjármálaeftirlitið fer með eftirlit með lögum um lífeyrissjóði en Fyrirtækjaskrá með lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, samlagshlutafélög og opinber hlutafélög.
Ísland er annað landið á eftir Noregi sem lögbindur kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja. Íslensku lögin um kynjakvóta ganga þó lengra en norsku lögin, því þau taka bæði til hlutafélaga og einkahlutafélaga, auk lífeyrissjóða, en norsku lögin ná einungis til hlutafélaga.
Ólíkt norsku lögunum eru þó engin refsiákvæði tilgreind í þeim íslensku. Þó er skylt að sundurliða upplýsingar um hlutföll kynja í stjórnum í tilkynningum til hlutafélagaskrár. Eftir að Norðmenn settu lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja á almennum markaði hefur hlutfall kvenna í stjórnum hækkað úr 9% í 39%. Þessa fjölgun í stjórnum vilja Norðmenn ekki síst rekja til viðurlaga við brotum á lögunum sem felast í sektum og slitum á félagi. Þessi fjölgun í stjórnum fyrirtækja hefur ekki skilað sér í hærra hlutfalli kvenna í stjórnunarstöðum í fyrirtækjum sem er ákveðið áhyggjuefni.
Árið 2013 samþykkti Evrópuþingið frumvarp um að hlutfall hvors kyns í stjórnum félaga innan ESB skuli vera a.m.k. 40% árið 2018 hjá félögum í opinberri eigu, en árið 2020 hjá félögum í eigu einkaaðila. Frumvarpið gildir um skráð félög með fleiri en 250 starfsmenn og tekjur yfir 50 milljarða evra og er því um rúmlega 5000 félög að ræða. Nú þegar hafa Austurríki, Belgía, Frakkland, Grikkland, Holland, Ítalía og Spánn tekið upp kynjakvóta. Sambærilegar tillögur liggja fyrir í Þýskalandi og Svíþjóð en í Bretlandi hafa fyrirtæki verið hvött til að auka hlutfall kvenna í stjórnum svo ekki þurfi að koma til lagasetningar. Í lok ársins 2014 eru konur einungis 18% stjórnarmanna stærstu fyrirtækjanna í löndum Evrópusambandsins en þessar tölur benda til þess að kynjakvóti verði innleiddur. Mikill þrýstingur er á innleiðingu kynjakvóta víða og liggja tillögur um kynjakvóta fyrir í Ísrael, Brasilíu, Filippseyjum, Kanada og Suður-Afríku.