- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 tóku gildi 18. mars 2008.
Lögin voru felld úr gildi með lögum nr. 150/2020 og lögum nr. 151/2020. Síðustu úgáfu laganna má finna hér.
Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000 tóku gildi 6. júní 2000. Með lögunum var Skrifstofa jafnréttismála lögð niður og Jafnréttisstofa stofnuð á Akureyri.
Þau nýmæli voru í lögunum að atvinnurekendum og skólastjórnendum var gert skylt að koma í veg fyrir kynferðislega áreitni á vinnustöðum og í skólum. Einnig var fyrirtækjum með fleiri en 25 starfsmenn gert skylt að setja sér jafnréttisáætlun eða kveða á um jafnrétti kynjanna í starfsmannastefnu sinni.
Nýtt ákvæði kvað á um að atvinnurekendur skyldu gera ráðstafanir til að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Orðalagi greinar um sérstakar tímabundnar aðgerðir til að koma á jafnrétti kynjanna var breytt, þannig að leyfilegt var að beita aðgerðum til að rétta stöðu karla jafnt sem kvenna. Þá var í fyrsta sinn sett ákvæði um að ráðuneytin skyldu skipa sér jafnréttisfulltrúa.
Lögin voru felld úr gildi með lögum nr. 10/2008. Síðustu útgáfu laganna í lagasafni má finna hér.
Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 28/1991 voru samþykkt í mars 1991. Með lögunum var kærunefnd jafnréttismála sett á fót. Nefndin hafði það hlutverk að fjalla um brot á jafnréttislögunum og beina rökstuddum tilmælum til hlutaðeigandi aðila, ef hún taldi lögin hafa verið brotin. Kveðið var á um að sá sem var kærður þyrfti að sanna að brot hefði ekki verið framið. Niðurstöður kærunefndarinnar voru ekki bindandi.
Sveitafélögum með yfir 500 íbúa var gert skylt að stofna jafnréttisnefndir og jafnframt var ákvæði um að leggja bæri framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum fyrir Alþingi til samþykktar.
Lögin voru felld úr gildi með lögum nr. 96/2000. Síðustu útgáfu laganna í lagasafni má finna hér.
Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 65/1985 fólu í sér þá breytingu að formlegt eftirlitshlutverk Alþingis með stöðu jafnréttimála kom til sögunnar með ákvæði um að ráðherra gæfi Alþingi árlega skýrslu um stöðu mála. Þá var ríkisstjórninni gert skylt að semja sérstaka framkvæmdaáætlun sem væri kynnt og rædd á Alþingi. Lögin kváðu einnig á um að tímabundnar aðgerðir til að rétta hlut kvenna brytu ekki í bága við lögin.
Lögin voru felld úr gildi með lögum nr. 28/1991. Lögin og lagafrumvarpið ásamt ferli málsins á Alþingi má sjá hér.
Lög um jafnrétti kvenna og karla nr. 78/1976 voru fyrstu jafnréttislögin, sem samþykkt voru á Íslandi. Í lögunum var tekið fram að tilgangur þeirra væri að stuðla að jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla.
Lögin beindust fyrst og fremst að stöðu kynjanna á vinnumarkaði, ekki síst hvað varðaði launajafnrétti. Einnig voru ákvæði um jafnréttisfræðslu í skólum og kveðið var á um að auglýsendum væri óheimilt að birta auglýsingar sem orðið gætu öðru kyninu til minnkunar eða lítilsvirðingar.
Sett var á fót fimm manna Jafnréttisráð, sem hafði það hlutverk að annast framkvæmd laganna. Jafnréttisráð hafði jafnframt það hlutverk að taka við ábendingum um brot á lögunum og rannsaka mál. Ef ráðið taldi að um brot væri að ræða átti það að beina rökstuddum tilmælum til hlutaðeigandi aðila. Einnig var kveðið á um að Jafnréttisráð hefði skrifstofu og réði sér framkvæmdastjóra.
Lögin voru felld úr gildi með lögum nr. 65/1985. Lögin og lagafrumvarpið ásamt feril málsins á Alþingi má sjá hér.