Hlutverk Jafnréttisstofu

Stofnun ársins 2022

Jafnréttisstofa annast stjórnsýslu á sviði jafnréttismála í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020, lög um jafna meðferð utan vinnumarkaðar nr. 85/2018 og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði nr. 86/2018.

Jafnréttisstofa heyrir undir yfirstjórn félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Hlutverk Jafnréttisstofu er skilgreint í 4. gr. laga um stjórnsýslu jafnréttismála nr. 151/2020. Verkefni sem stofnunin annast á grundvelli laga um jafnréttismál eru að:

a. hafa eftirlit með framkvæmd laganna,

b. sjá um fræðslu og upplýsingastarfsemi á sviði jafnréttismála,

c. veita ráðgjöf og aðstoð á sviði jafnréttismála,

d. koma á framfæri við ráðherra og önnur stjórnvöld ábendingum og tillögum um aðgerðir til að stuðla að auknu jafnrétti, t.d. um sértækar aðgerðir á sviði jafnréttismála,

e. hvetja til virkrar þátttöku á sviði jafnréttismála, m.a. aukinnar aðkomu karla að kynja- og jafnréttisstarfi,

f. fylgjast með þróun jafnréttismála í samfélaginu, svo sem með upplýsingaöflun og úttektum og hafa frumkvæði að því að gerðar verði skýrslur, kannanir eða rannsóknir á sviði jafnréttismála,

g. vinna að forvörnum gegn kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni og kynferðislegri áreitni í samstarfi við önnur stjórnvöld og samtök sem sinna slíkum forvörnum sérstaklega, sbr. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna,

h. vinna gegn launamisrétti og annarri mismunun á vinnumarkaði; sérstök áhersla skal lögð á að vinna gegn launamisrétti á grundvelli kyns, sbr. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna,

i. leita sátta í ágreiningsmálum sem Jafnréttisstofu berast og varða ákvæði laganna, ef Jafnréttisstofa telur tilefni til,

j. vinna gegn neikvæðum kynjaímyndum og neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kvenna og karla sem og neikvæðum staðalímyndum byggðum á kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu,

k. hafa umsjón með umsýslu jafnlaunavottunar og jafnlaunastaðfestingar, sbr. 9. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, annast eftirlit með jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfestingu, sbr. 10. gr. sömu laga, og veita jafnlaunastaðfestingu, sbr. 8. gr. sömu laga,

l. vinna önnur verkefni í samræmi við markmið laganna samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra.

Acts in English

Act on Equal Status and Equal Rights irrespective of Gender no. 150/2020
Act on the Administration of Matters Concerning Equality no. 151/2020
Act on Equal Treatment irrespective of Race and National Origins No. 85/2018
The Act on Equal Treatment in the Labor Market no. 86/2018