Lög um jafnrétti

Jafnréttisstofa annast stjórnsýslu á sviði jafnréttismála í samræmi við eftirtalin lög:

Hlutverk Jafnréttisstofu er skilgreint í 4. gr. laga um stjórnsýslu jafnréttismála nr. 151/2020.

Fleiri lög á Íslandi sem tryggja jafnrétti kynja:

  • Lög um fæðingar- og foreldraorlof nr. 144/2020 hafa það að markmiði að „tryggja barni samvistir við báða foreldra“ og er þeim „ætlað að gera foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.“ Þeim réttindum sem fólki eru tryggð í lögum um fæðingarorlof tengist reglugerð um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir konur sem eru þungaðar, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti. Í henni felst viðurkenning á því að við ákveðnar aðstæður þurfi að taka aukið tillit til kvenna sem ganga með eða nýlega hafa fætt barn.
  • Lög um kynrænt sjálfræði nr. 80/2019 kveða á um rétt einstaklinga til að skilgreina kyn sitt og miða að því að tryggja að kynvitund þeirra njóti viðurkenningar. Einnig er lögunum ætlað að standa vörð um rétt einstaklinga til líkamlegrar friðhelgi.
  • Í lögum um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs nr. 45/2019 kemur fram í 5. gr. að eitt af hlutverkum hans sé að „leiðbeina þeim einstaklingum sem til hans leita vegna atvika eða misgerða sem orðið hafa í skipulögðu starfi félaga og samtaka sem falla undir lög þessi eða í tengslum við það um þau úrræði sem standa til boða, hvernig kvörtun er komið á framfæri við rétt yfirvöld og eftir atvikum um þá þjónustu sem ríki og sveitarfélög bjóða upp á.
  • Í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 er kveðið á um að ráðherra skuli setja reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.
  • Í lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007 kemur fram í 4. grein að „á veitingastöðum er hvorki heimilt að bjóða upp á nektarsýningar né með öðrum hætti að gera út á nekt starfsmanna eða annarra sem á staðnum eru“.
  • Í lögum um einkahlutafélög nr. 128/1994 kemur fram í 39. grein að „Þegar stjórnarmenn eru tveir eða þrír í félagi þar sem starfa fleiri en 50 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli skal hvort kyn eiga fulltrúa í stjórn og þegar stjórnarmenn eru fleiri en þrír í slíkum félögum skal hlutfall hvors kyns ekki vera lægra en 40%.“ Þessi breyting gekk í gildi 2013.
  • Í lögum um hlutafélög nr. 2/1995 kemur fram í 63. grein að „Í stjórnum opinberra hlutafélaga og hlutafélaga þar sem starfa fleiri en 50 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli skal hvort kyn eiga fulltrúa í stjórn þegar stjórn er skipuð þremur mönnum og þegar stjórnarmenn eru fleiri en þrír í slíkum félögum skal tryggt að hlutfall hvors kyns sé ekki lægra en 40%. Sama gildir um kynjahlutföll meðal varamanna í slíkum félögum en hlutföllin í stjórn og varastjórn skulu þó í heild vera sem jöfnust.“ Þessi breyting gekk í gildi 2013.
  • Í lögum um samvinnufélög nr. 22/1991 kemur fram í 27. grein um stjórn félags og framkvæmdastjórn "Í stjórnum samvinnufélaga þar sem starfa fleiri en 50 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli skal hvort kyn eiga fulltrúa í stjórn þegar stjórn er skipuð þremur mönnum og þegar stjórnarmenn eru fleiri en þrír skal tryggt að hlutfall hvors kyns sé ekki lægra en 40%."
  • Í sameignarfélög nr. 50/2007 kemur fram í 13. grein um félagsstjórn "Í stjórnum sameignarfélaga þar sem starfa fleiri en 50 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli skal hvort kyn eiga fulltrúa í stjórn þegar stjórn er skipuð þremur mönnum og þegar stjórnarmenn eru fleiri en þrír skal tryggt að hlutfall hvors kyns sé ekki lægra en 40%."
  • Í lögum um opinber fjármál nr.123/2015 kemur fram í 18. grein um kynjuð fjármál og jafnrétti að fjármála- og efnahagsráðherra, „í samráði við ráðherra jafnréttismála, hefur forustu um að gerð verði áætlun um kynjaða fjárlagagerð sem höfð skal til hliðsjónar við gerð frumvarps til fjárlaga. Í frumvarpi til fjárlaga skal gerð grein fyrir áhrifum þess á markmið um jafna stöðu karla og kvenna.“ Nánar má lesa um framkvæmd laga á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins.
  • Í lögum um fjölmiðla nr. 28/2011 kemur fram í 26. grein um lýðræðislegar grundvallarreglur, að "fjölmiðlaveita skal í starfi sínu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og standa vörð um tjáningarfrelsi. Hún skal virða mannréttindi og jafnrétti, og einnig friðhelgi einkalífs nema lýðræðishlutverk fjölmiðlaveitu og upplýsingaréttur almennings krefjist annars. Fjölmiðlaveita skal gæta þess að uppfylla kröfur um hlutlægni og nákvæmni í fréttum og fréttatengdu efni og gæta þess að mismunandi sjónarmið komi fram, jafnt karla sem kvenna."

Upplýsingar um eldri löggjöf um jafnrétti kynja.

Dagsektir 

Reglugerð um beitingu dagsekta sem Jafnréttisstofa ákveður

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um beitingu Jafnréttisstofu á dagsektum gagnvart aðila sem fellur undir 1.-4. tl. 2. mgr. þessa ákvæðis sbr. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Jafnréttisstofa getur lagt dagsektir á aðila sem brýtur gegn eftirfarandi ákvæðum laganna:

      1. 5. mgr. 4. gr., um skyldu til að láta Jafnréttisstofu í té upplýsingar og gögn sem hún telur nauðsynleg til að upplýsa um málsatvik innan hæfilegs frests, hafi hún rökstuddan grun um brot á lögunum og er að kanna hvort ástæða sé til að óska eftir því að kærunefnd jafnréttis­mála taki málið til meðferðar.
      2. 6. mgr. 4. gr., um skyldu til að verða við fyrirmælum Jafnréttisstofu um að grípa til viðun­andi úrbóta til samræmis við úrskurð kærunefndar jafnréttismála innan hæfilegs frests.
      3. 5. mgr. 18. gr., um skyldu til að verða við fyrirmælum Jafnréttisstofu um að gera viðunandi úrbætur innan hæfilegs frests hvað varðar skyldu til að setja sér jafnréttisáætlun eða sam­þætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína eða það sé mat Jafnréttisstofu að jafn­réttis­áætlun sé ekki viðunandi eða jafnréttissjónarmið hafi ekki verið samþætt í starfsmanna­stefnu með nægilega skýrum hætti, sbr. 4. mgr. 18. gr. Jafnframt ef aðili lætur hjá líða að afhenda Jafnréttisstofu afrit af jafnréttisáætlun, eða starfs­manna­stefnu sinni, ef jafn­réttis­­áætlun er ekki fyrir hendi, ásamt framkvæmdaáætlun þegar Jafnréttisstofa óskar eftir því eða ef aðili neitar að afhenda Jafnréttisstofu skýrslu um framgang mála, sbr. 3. mgr. 18. gr.
      4. 8. mgr. 19. gr., um skyldu til að verða við fyrirmælum Jafnréttisstofu um að gera viðunandi úrbætur innan hæfilegs frests hvað varðar skyldu til að öðlast vottun skv. 4. mgr. 19. gr. eða stað­festingu skv. 5. mgr. 19. gr., og endurnýjun þar á. Jafnframt hvað varðar skyldu til að veita samtökum aðila vinnumarkaðarins nauðsynlegar upplýsingar og gögn samkvæmt 2. málsl. 8. mgr. 19. gr.

2. gr.

Krafa gerð um úrbætur.

Ef í ljós kemur að aðili gerist brotlegur við þau ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sem talin eru upp í 2. mgr. 1. gr. reglugerðar þessarar, skal Jafnréttisstofa krefjast þess að úr sé bætt innan hæfilegs frests.

3. gr.

Úrbótum lokið.

Úrbótum telst lokið þegar Jafnréttisstofa hefur staðfest móttöku greinargerðar frá aðila og stofan metur ráðstafanir fullnægjandi sem gerðar hafa verið til að fylgja eftir kröfu Jafnréttisstofu skv. 2. gr. Nú eru úrbætur ekki fullnægjandi og telst þeim þá ekki lokið innan frests sem gefinn var skv. 2. gr.

4. gr.

Ákvörðun um dagsektir.

Jafnréttisstofu er heimilt að leggja dagsektir á aðila veiti hann ekki umbeðnar upplýsingar eða umbeðin gögn eða sinnir ekki fyrirmælum Jafnréttisstofu um að gera viðunandi úrbætur innan hæfi­legs frests, sbr. 2. mgr. 1. gr.

Jafnréttisstofa leggur dagsektir á aðila með sérstakri ákvörðun. Aðila sem ákvörðun um dag­sektir beinist að skal gefinn kostur á að koma að skriflegum andmælum innan hæfilegs frests áður en Jafnréttisstofa tekur ákvörðun skv. 1. mgr. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynna bréflega á sannan­legan hátt þeim sem hún beinist að án ástæðulausra tafa.

5. gr.

Fjárhæð dagsekta.

Dagsektir geta numið allt að kr. 50.000 á dag frá þeim degi sem þær eru ákvarðaðar og fram að þeim degi sem skyldunni er fullnægt að mati Jafnréttisstofu. Við ákvörðun fjárhæðar dagsekta skal meðal annars líta til fjölda starfsmanna fyrirtækis, stofnunar eða félagasamtaka og hversu umsvifa­mikill viðkomandi rekstur er.

6. gr.

Kæruheimild.

Nú vill aðili ekki una ákvörðun Jafnréttisstofu um dagsektir og getur hann þá kært hana til þess ráðherra sem fer með jafnréttismál samkvæmt 10. mgr. 4. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, og VII. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Ráðuneytið skal kveða upp úrskurð eins fljótt og unnt er frá því að kæra barst til úrskurðar. Kæra til ráðherra frestar ekki réttaráhrifum ákvörð­unar skv. 2. mgr. 4. gr., sbr. þó 2. mgr. 7. gr. reglugerðar þessarar.

7. gr.

Fullnusta dagsekta.

Dagsektir eru aðfararhæfar og renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna.

Kæra til ráðherra eða málshöfðun fyrir almennum dómstólum frestar aðför.

8. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 33. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.

Forsætisráðuneytinu, 8. október 2019.

Katrín Jakobsdóttir.

Ragnhildur Arnljótsdóttir.

 

Acts in English

Act on Equal Status and Equal Rights irrespective of Gender no. 150/2020
Act on the Administration of Matters Concerning Equality no. 151/2020
Act on Equal Treatment irrespective of Race and National Origins No. 85/2018
The Act on Equal Treatment in the Labor Market no. 86/2018