Jafnréttisstofa hefur verið beðin um að koma á framfæri eftirfarandi, frá undirbúningsnefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna:
"Nú líður senn að merkum tímamótum í sögu og réttindabaráttu kvenna, - 100 ára afmæli kosningaréttar og kjörgengis kvenna til Alþingis á næsta ári. Án efa hafið þið þegar hafið undirbúning að viðburðum árið 2015. Á síðasta kjörtímabili samþykkti Alþingi þingsályktun um að á næsta ári, 2015, yrði haldið upp á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Megináherslan er lögð á að virkja grasrótarsamtök kvenna, jafnréttis- og stjórnmálasamtök og hvetja þau til að láta sig varða og styðja málefni kvenna og jafnrétti og efna í því skyni til atburða og verkefna til að minnast þeirra merku tímamóta sem kosningarétturinn markaði. Afmælisnefnd hóf störf haustið 2013 en fjöldi fulltrúa jafnréttis- og kvennahreyfinga kom að stefnumótun fyrir afmælið.
Hugmyndir um verkefni frá þeim voru t.d. könnun jafnréttismála í heimabyggð, sýningar á verkum kvenna og sögu, umfjöllun um fyrstu konur í sveitarstjórn/bæjarstjórn og/eða fyrstu konu hvers kjördæmis á Alþingi, ritgerðaverkefni eða önnur verkefni s.s. stuttmyndir um kosningarétt kvenna og jafnrétti, flutningur á tónverkum og hljóðfæraleik kvenna, verkefni í tónlistarskólum, íþróttum kvenna sómi sýndur, hátíðahöld um allt land 19. júní, o.s.frv. Hér er fátt eitt tínt til sem nefnt var. Einnig þótti við hæfi að kynna sérstaklega Ingibjörgu H. Bjarnason sem fyrst kvenna var kjörin til setu á Alþingi, en hún var kjörin af landslista.
Það er mikilvægt að jafnréttissinnar og kvennahreyfingar um allt land sýni frumkvæði hver á sinn hátt og hvetji til virkni og efni til fjölbreyttra atburða og verkefna í tilefni afmælisins. Auglýst verður eftir umsóknum um styrki nú í október til verkefna árið 2015. Verður þá hægt að sækja um til ákveðinna verkefna, en styrkveitingar verða í tvennu lagi.
Sjá nánar auglýsingu hér.
Þegar hafa bæjar- og sveitarstjórnir og kjörnir fulltrúar fengið erindi frá afmælisnefndinni með hvatningu um að sinna afmælinu með veglegum hætti, hver á sínum stað.
Skólar, - leikskólar, grunnskólar og framhaldsskólar hafa verið hvattir til að taka inn í námsefnið umfjöllun um kosningaréttinn og afmælið. Sérstakur vefur með verkefnum fyrir kennara efri bekkja grunnskóla verður opnaður í haust til að auðvelda þeim það.
Söfnin eru hvött til að taka fram verk og muni sem varða málefnið til að sýna á næsta ári. Nefna má listaverk eftir konur í 100 ár, umfjöllun, ljósmyndir, bækur um og/eða eftir konur, handrit og annað sem varpar ljósi á þróun lýðræðis. Við hvetjum til fjölbreyttra sýninga og viðburða.
Bókasöfn eru hvött til að taka fram kvennabókmenntir, ljóð og sögur um og eftir konur, kvennabaráttuverk, efni til upplestra úr völdum verkum, umræðna o. s. frv.
Landsbókasafnið verður með sýningu um sögu kosningaréttarins og þróun hans. Það mun útbúa farandsýningu á spjöldum og getur hver sem er pantað hana og sett upp.
Þjóðminjasafnið verður með sýningu í tilefni afmælisins undir heitinu Íslenskar konur í 100 ár 1915-2015 og farið verður yfir grunnsýningu safnsins með kynjagleraugum. Listasafn Íslands verður með tvær stórsýningar í tilefni afmælisins og málþing um stöðu kvenna í listum.
Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur tónleika í Hörpu með konum í lykilhlutverkum þar sem verk kvenna eru á efnisskrá og Ríkisútvarpið mun gera afmælinu góð skil.
19. júní 2015 verða hátíðahöld á Austurvelli, en þann dag eru 100 ár frá því að undirrituð var stjórnarskrárbreyting þar sem konur fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Hátíðarfundur verður á Alþingi um morguninn og hátíðahöld síðdegis og jafnvel útitónleikar kvennahljómsveita. Dagskráin er enn í mótun.
Allir viðburðir verða kynntir á heimasíðunni
www.kosningarettur100ara.is sem verður opnuð 24. október nk. Mikilvægt er að tilkynna um viðburði svo þeir fari inn á dagatal heimasíðunnar. Það er hægt að gera eftir því sem ákvarðanir um þá eru teknar.
Við hvetjum ykkur til að halda þessum tímamótum á lofti, minnast afmælisins og efla þannig jafnréttis- og lýðræðisvitund þjóðarinnar.
Það er von okkar að umræða um 100 ára afmælishaldið verði frjó um allt land.
Vinsamlega sendið þetta bréf áfram til aðildarfélaga eða annarra sem málið varðar.
Með góðri kveðju, fyrir hönd afmælisnefndar,
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir framkvæmdastjóri "