- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Fyrsta jafnréttistorg vetrarins í Háskólanum á Akureyri fer fram miðvikudaginn 14. október nk. Þar munu dr. Sigrún Stefánsdóttir og Valgerður Sverrisdóttir fyrrum alþingiskona og ráðherra flytja innlegg í tengslum við útgáfu bókarinnar Frú ráðherra - frásagnir kvenna á ráðherrastóli eftir Eddu Jónsdóttur og dr. Sigrúnu Stefánsdóttur. Jafnréttistorgið mun fara fram kl. 12.00, í stofu N101 Sólborg v/Norðurslóð og er öllum opið án endurgjalds.
Nærri lætur að 80% þeirra einstaklinga sem gegndu embætti ráðherra á Íslandi á lýðveldistímabilinu fram til 2013 hafi verið karlar. Margir þessara einstaklinga voru ráðherrar lengi og stýrðu mismunandi ráðuneytum. Hlutur kvenna var því rýr, einkum framan af og aðeins tuttugu og ein kona hefur verið ráðherra á þessu tímabili.
Dr. Sigrún Stefánsdóttir segir frá vinnslu bókarinnar Frú Ráðherra og upplifun sinni af konunum tuttugu sem segja sögu sína í bókinni. Hún mun líka segja frá því ferli að gefa út bók. Titill erindisins hennar, „Þú ert svo klár að búa til bækur!“ er tilvitnun í 6 ára barnabarn sem sendi henni kort með þessum texta við útgáfu bókarinnar. Valgerður mun lesa upp úr kaflanum sem fjallar um hana og ber heitið „Það verður skúrað á eftir“. Í bókinni birtast ítarleg viðtöl við tuttugu af tuttugu og einni konu sem gegnt hafa ráðherraembætti á Íslandi. Sú fyrsta, Auður Auðuns, lést árið 1999 og er bókin tileinkuð minningu hennar.
Dr. Sigrún Stefánsdóttir er forseti hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri. Hún lauk doktorsprófi í fjölmiðlafræði frá Háskólanum í Minnesota í Bandaríkjunum árið 1987. Sigrún hefur rannsakað stöðu kvenna í fjölmiðlum auk þess að skipuleggja fjölda fjölmiðlanámskeiða fyrir konur.
Valgerður Sverrisdóttir er ferðaþjónustubóndi og fyrrverandi alþingismaður og ráðherra.