„Aðgengi eða áhugi? Munur á röðun og vægi frétta eftir karla og konur"

Miðvikudaginn 17. september kl. 12.00-13.00 flytur Arnhildur Hálfdánardóttir, fréttamaður, erindið „Aðgengi eða áhugi? Munur á röðun og vægi frétta eftir karla og konur“. Félagsvísindatorgið er í samstarfi við Jafnréttisstofu. 

Arnhildur Hálfdánardóttir útskrifaðist með meistaragráðu í blaða- og fréttamennsku frá Háskóla Íslands síðast liðið vor. Hún starfar nú sem fréttamaður á RÚV. Arnhildur er með BA próf í mannfræði og er stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri. Hennar fyrsta reynsla af fjölmiðlum var þegar hún sat í ritstjórn skólablaðs MA Munins


Í erindi sínu mun Arnhildur fjalla um niðurstöður innihaldsgreiningar á kvöldfréttatímum RÚV og Stöðvar 2 og um djúpviðtöl sem hún tók við fréttamenn og veita innsýn í starf þeirra og upplifun af stöðu sinni. Erindi Arnhildar byggir á MA rannsókn hennar, en fræðimenn hafa haldið því fram að fjölmiðlaumhverfið sé karllægt. Einnig hefur því verið haldið fram að konur hafi ekki aðgengi að öllum efnisflokkum til jafns á við karla og að efni eftir þær sé minna metið. Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á hvort munur væri á efnistökum karla og kvenna og hvort framlag þeirra væri jafn mikils metið. Þá var kannað hvort fréttamenn teldu áhuga, aðgengi eða aðra þætti ráða því hvaða málaflokka fréttamenn fjölluðu um og hversu framarlega fréttir þeirra röðuðust. Loks voru viðhorf fréttamanna til fréttamats, jafnréttismála og stöðu kynjanna á vinnustað könnuð. Ritgerðina má nálgast á www.skemman.is 

Félagsvísindatorgið verður í stofu M102 og eru allir velkomnir