- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Magnfríður Júlíusdóttir ræðir um kvennastýrð heimili í Zimbabve og Alda Lóa Leifsdóttir ræðir um aðstæður ungs fólks í Tógó og starfsemi Sóleyjar og félaga í þágu heimilis systur Victorine á UNIFEM-umræðum, laugardaginn 10. apríl kl. 13:00 í húsnæði Miðstöðvar SÞ að Laugavegi 42Magnfríður Júlíusdóttir er lektor í landfræði við Háskóla Íslands, en hún gerði umfangsmikla rannsókn á kvennastýrum heimilum í Zimbabve.
Magnfríður bendir á að farandverkamennska, aukning hjónaskilnaða og minnkandi öryggisnet í kringum ekkjur séu þættir sem beint hafa sjónum að kvennastýrðum heimilum í sunnanverðri Afríku og víðar. Magnfríður ræðir um fjölbreytileikann meðal þessara kvenna og dregur upp mynd af lífshlaupi, aðstæðum og framtíðarsýn nokkurra þeirra sem rætt var við í rannsókn hennar á þróun og lífsviðurværi kvennastýrðra heimila í austurhluta Zimbabve. Magnfríður fjallar um þróun kvennastýrðra heimila í samhengi við samfélagsþróun og kvenréttindabaráttu eftir sjálfstæði Zimbabve árið 1980. Fjölgun kvennastýrðra heimila er gjarnan tengd kvenvæðingu fátæktar í fræðilegri umræðu og stefnumótun í þróunarsamvinnu.
Alda Lóa Leifsdóttir er grafískur hönnuður og fréttaljósmyndari en hún mun fjalla um aðstæður ungs fólks í Tógó sem er er lítið land í vestur-Afríku, en það er eitt fátækasta land í heimi. Í landamærabænum Aneho býr systir Victorine, tógósk nunna, en í kringum hana hefur myndast samfélag barna og ungs fólks sem hún hefur tekið undir sinn verndarvæng. Skjólstæðingar hennar eru bæði stúlkur og drengir, hvítvoðungar og fólk á þrítugsaldri, sem ekki hafa í önnur hús að venda. Þá styður hún við skólagöngu skjólstæðinga sinna og liðsinnir þeim. Alda Lóa segir okkur einnig frá íslenska félaginu Sóley og félagar en markmið þess er að styðja við starfsemi systur Victorine.
Fundurinn stendur í klukkutíma, aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.
UNIFEM á Íslandi er ein af 18 landsnefndum UNIFEM, Þróunarsjóðs Sameinuðu þjóðanna í þágu kvenna. Landsnefndirnar eru frjáls félagasamtök sem styðja við starf sjóðsins. Markmið UNIFEM á Íslandi er að kynna og auka áhuga landsmanna á UNIFEM og afla fjár til verkefna UNIFEM bæði frá hinu opinbera, fyrirtækjum og einstaklingum. Auk þess að vera málsvari kvenna í þróunarlöndum með það að leiðarljósi að störf þeirra séu órjúfanlegur hluti friðar og framfara.