- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Þann 9. maí sl. varð Alþjóðlegi jafnréttisskólinn á Íslandi hluti af neti Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi með undirritun þríhliða samstarfssamnings utanríkisráðuneytisins, Háskóla Sameinuðu þjóðanna og Háskóla Íslands þar að lútandi. Alþjóðlegi jafnréttisskólinn hefur starfað frá janúar 2009 þegar honum var komið á fót með samningi milli utanríkisráðuneytisins og Háskóla Íslands. Skólinn var upphaflega starfræktur sem tilraunaverkefni með það að markmiði að verða síðar hluti af tengslaneti Háskóla Sameinuðu þjóðanna, og er byggður á sömu hugmyndafræði og aðrir skólar Háskóla Sameinuðu þjóðanna.Líkt og Jarðhita-, Sjávarútvegs- og Landgræðsluskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna er Alþjóðlegi jafnréttisskólinn liður í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands. Hann hefur að markmiði að veita sérfræðingum frá þróunarlöndum sem starfa að jafnréttismálum þjálfun á sínu sérsviði og gera þeim betur kleift að vinna að jafnri stöðu karla og kvenna í heimalöndum sínum.
Í náminu er lögð áhersla á að stuðla að jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna í anda þriðja þúsaldarmarkmiðsins, um að unnið skuli að jafnrétti kynjanna og frumkvæðisrétti kvenna. Einnig er lögð áhersla á jafnréttissjónarmið við friðaruppbyggingu í samræmi við ályktun öryggisráðs SÞ nr. 1325 um konur, frið og öryggi. Loks er sjónum beint að samþættingu kynjasjónarmiða í umhverfismálum og við sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda, s.s. í fiskveiði-, orku- og landgræðslumálum.
Í júní 2012 var gerð óháð úttekt á starfsemi skólans, sem var forsenda þess að hann gæti orðið hluti af neti Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Úttektin leiddi í ljós að Alþjóðlegi jafnréttisskólinn uppfyllir öll skilyrði um fulla aðild að Háskóla Sameinuðu þjóðanna og að starfsemi hans fellur vel að markmiðum Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Í kjölfar úttektarinnar hófst vinna við gerð samnings sem nú hefur verið undirritaður og hefur Alþjóðlegi jafnréttisskólinn því formlega hlotið aðild að Háskóla Sameinuðu þjóðanna.
Frá upphafi hafa 21 nemendur útskrifast frá Alþjóðlega jafnréttisskólanum, 14 konur og 7 karlar frá Afganistan, Palestínu, Mósambík og Úganda. Þá munu 8 nemendur útskrifast hinn 31. maí n.k. 3 karlar og 5 konur, sem koma frá Palestínu, Malaví, Mósambík og Úganda.
Alþjóðlegi jafnréttisskólinn er rekinn í nánu samstarfi við EDDU - öndvegissetur og heyrir undir Hugvísindasvið Háskóla Íslands.
Heimasíða skólans