Niðurstöður spurningakönnunar sem Jafnréttisstofa sendi sveitarstjórnarfólki nú í aðdraganda kosninga sýnir að sveitarstjórnarfólk á Íslandi eru óánægt með laun fyrir störf sín í sveitarstjórnum. Niðurstöður eru svipaðar fyrir bæði konur og karla, þar sem meirihluti bæði karla og kvenna eru ósammála fullyrðingunni „ég er ánægð(ur) með laun mín fyrir störf mín í sveitarstjórn.
Í könnuninni var sveitarstjórnarfólk einnig spurt að því hversu margir tímar í viku færu í sveitarstjórnarstörf. Niðurstöður sýna að konur segjast almennt vinna færri tíma að sveitarstjórnarstörfum en karlar.
24% kvenna og 13% karla segjast vinna 0-5 tíma í viku. Þá er einnig nokkur munur í flokki þeirra sem segjast vinna meira en meira en 20 tíma í viku, þar sem 22% karla og 15% kvenna segjast vinna svo mikið. Flestir svarendur telja að þeir verji á milli 5-10 tímum og 10-20 tímum í viku í sveitarstjórnarstörf.
Rannsóknin var unnin í samstarfi Jafnréttisstofu við Dr. Grétar Þór Eyþórsson, prófessor við viðskipta- og raunvísindasvið Háskólans á Akureyri. Þátttakendur voru kjörnir fulltrúar síðustu sveitarstjórnarkosninga (árið 2010). Könnunin var send til 524 viðtakenda og alls svöruðu 267 eða 51%. Konur voru 46% þátttakenda og karlar 54%.