- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Jafnréttisstofa gefur út dagatal í ár með þeim skilaboðum að nauðsynlegt sé að brjóta niður staðalmyndir kynjanna á vinnumarkaði. Dagatalið hefur verið sent víða um land, til rúmlega 300 fyrirtækja, sveitarfélaga, leik-, grunn og framhaldsskóla og ýmissa stofnana. Með dagatalinu fá viðtakendur bréf þar sem skyldur þeirra samkvæmt jafnréttislögum eru tíundaðar og þeir hvattir til að nýta sér leiðsögn starfsfólks Jafnréttisstofu til að útbúa aðgerðabundnar jafnréttisáætlanir og auka þekkingu í sinni stofnun eða fyrirtæki á jafnréttismálum.
Jafnréttisstofa leggur áherslu á að kynbundið náms- og starfsval hindrar bestu nýtingu mannauðsins og dregur úr fjölbreytni og sveigjanleika vinnumarkaðarins. Ýmsar rannsóknir benda til að kynjaskiptur vinnumarkaður sé hindrun í vegi fyrir jafnri stöðu karla og kvenna þar sem hann viðheldur m.a. launamun kynjanna, og neikvæðum viðhorfum til þeirra sem vilja fara óhefðbundnar leiðir í náms- og starfsvali.