- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Bergný Sjöfn Sigurbjörnsdóttir, frá Seyðisfirði, nemi í Myndlistaskólanum á Akureyri hlaut í fyrstu verðlaun og 50.000 kr. í verðlaunafé í veggspjaldasamkeppni um kynbundið ofbeldi. Í dag veittu Jafnréttisstofa og forsvarsmenn verkefnisins Karlar til ábyrgðar Bergnýju Sjöfn Sigurbjörnsdóttur verðlaun fyrir besta veggspjaldið í samkeppni um hönnun veggspjalda sem tengjast baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi.
Bergný Sjöfn er nemandi í grafískri hönnun við Myndlistaskólann á Akureyri, en Jafnréttisstofa, Karlar til ábyrgðar og Myndlistaskólinn efndu til samstarfs um hönnun veggspjaldanna. Helgi Vilberg Helgason fékk viðurkenningu fyrir næst besta veggspjaldið og Eiríkur Arnar Magnússon fyrir það þriðja besta. Þeir fengu bókina Myrká eftir Arnald Indriðason í viðurkenningarskyni.
Það voru þau Kristín Ástgeirsdóttir, Einar Gylfi Jónsson og Andrés Ragnarsson sem afhentu verðlaunin, en í dómnefnd voru: Bergljót Þrastardóttir frá Jafnréttisstofu, Tryggvi Hallgrímsson fyrir Karlar til ábyrgðar, Margrét Lindquist frá Myndlistaskólanum, og Ólafur Númason grafískur hönnuður frá Geimstofunni.
Hönnunarsamkeppnin var liður í 16 daga alþjóðlegu átaki gegn kynbundnu ofbeldi sem stendur frá 25. nóvember til 10. desember n.k.
Jafnréttisstofa hefur það hlutverk, lögum samkvæmt, að vinna að forvörnum gegn kynbundnu ofbeldi og mun nota veggspjald Bergnýjar Sjafnar til að vekja athygli á því starfi.
Veggspjöldin eru til sýnis á Glerártorgi á Akureyri á meðan á 16 daga átakinu stendur.