Er brotið á atvinnuréttindum kvenna í íslenskri ferðaþjónustu?

Í sumar hefur Jafnréttisstofu borist ábendingar um brot á atvinnuréttindum kvenna sem starfa sem leiðsögumenn og atvinnubílstjórar í ferðum á vegum íslenskra ferðaþjónustuaðila. 
 
Kvenkyns leiðsögumenn og atvinnubílstjórar hafa þurft að sæta því að missa atvinnu og þar með launatekjur þegar erlendir gestir hafa neitað að fara í ferðir með þeim vegna kynferðis þeirra. 
 

Því vill Jafnréttisstofa ítreka að samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Atvinnurekendur skulu sérstaklega vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf. 
Að auki segir í 24. gr. laganna um almennt bann við mismunun að hvers kyns mismunun á grundvelli kyns, hvort heldur bein eða óbein, sé með öllu óheimil.