- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Einar Mar Þórðarson stjórnmálafræðingur fjallar í erindi á Jafnréttistorgi við Háskólann á Akureyri á morgun, miðvikudaginn 12. nóvember, um stjórnmálaþátttöku karla og kvenna og hvort munur sé á henni. Með stjórnmálaþátttöku er átt við flokkshollustu, aðild að flokkum, þátttöku í prófkjörum og ekki síst kosningahegðun. Innlendar og erlendar kosningarannsóknir hafa sýnt að kosningahegðun kvenna hefur verið að breytast þannig að að konur kjósa í auknu mæli vinstri flokka. Íslenskar kosningarannsóknir hafa sýnt að þessi munur er meiri hér á landi en annars staðar. Í fyrirlestrinum er fjallað um hvernig kosningahegðun karla og kvenna hefur þróast undafarna áratugi, hvers vegna hún er svo ólík sem raun ber vitni og reynt að svara hverju það sætir.
Einnig verður fjallað um aðra stjórnmálaþátttöku eins og aðild að stjórnmálaflokkum, flokkshollustu og þátttöku í prófkjörum. Þrátt fyrir að konum hafi fjölgað á Alþingi undanfarna áratugi þykir mörgum hægt ganga. Kynjahlutföll á Alþingi stjórnast fyrst og fremst af því hvernig kynjunum er raðað á framboðslista flokkanna. Prófkjör er vinsæl aðferð hjá flokkunum til að raða á lista og því áhugavert að skoða þátttöku hins almenna kjósenda í þeim og hvort þessi aðferð skýri ójafnt kynjahlutfall á Alþingi. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:00 í Háskólanum á Akureyri, í stofu L201.
Einar Mar Þórðarson er stjórnmálafræðingur frá Háskóla Íslands og starfar nú hjá Félagsvísindastofnun HÍ. Þar hefur hann lengi starfað með Ólafi Þ. Harðarsyni, prófessor við greiningu Íslensku kosningarannsóknanna. Hjá Félagsvísindastofnun hefur Einar einnig unnið talsvert við kjararannsóknir, ekki síst greiningu á kynbundnum launamun, og rannsóknum á viðhorfum Íslendinga til umhverfismála. Einar hefur einnig verið ráðgjafi fréttastofu Stöðvar 2 í kosningasjónvarpi stöðvarinnar 2006 og 2007.