Feðraveldið og loftslagsbreytingar

Hafa loftslagsbreytingar eitthvað með feðraveldið að gera? Þetta er meðal þess sem Dr. Auður H. Ingólfsdóttir mun ræða á jafnréttistorgi (félagsvísindatorgi) í Háskólanum á Akureyri miðvikudaginn 15. febrúar, kl. 12.00-12.50. Jafnréttistorgið er í samstarfi Jafnréttisstofu og Hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri. Allir velkomnir.

Í erindinu mun Auður skýra frá því hvernig hún beitti feminískum greiningatækjum við að skoða mótun og framfylgd loftslagsstefnu á Íslandi. Í nýlegri doktorsrannsókn sinni skoðar hún hvaða hindranir koma helst í veg fyrir að tekist sé á við loftslagsvandann og beinir sjónum m.a. að pólitískri orðræðu og þeim gildum sem ráða för við stjórnun náttúruauðlinda. Sérstaklega er horft til með hvaða hætti gildi sem flokka mætti sem karllæg eða kvenlæg hafa áhrif á ákvarðanatöku og hvernig við skynjum tengsl manns og náttúru.


Auður hefur starfað sem lektor við Háskólann á Bifröst frá árinu 2010. Hún er með BA og MA gráðu í alþjóðafræðum og hefur nýlokið við doktorsgráðu frá HÍ og Háskólanum í Lapplandi (Finnlandi) á sviði alþjóðastjórnmála og kynjafræði. Áður en hún hóf störf við Háskólann á Bifröst starfaði hún m.a. sem blaðamaður, sem verkefnisstjóri við HÍ, sem sérfræðingur í umhverfisráðuneytinu, sem friðargæsluliði á Sri Lanka á vegum íslensku friðargæslunnar og sem jafnréttisráðgjafi fyrir UNIFEM á Balkansskaga.

Torgið verður í stofu M101 og er öllum opið án endurgjalds