- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Kvennafrídagurinn var haldinn hátíðlegur á Akureyri sl. laugardag og þess minnst að fjörutíu ár voru liðin frá því að íslenskar konur fylktu liði og tóku sér frí í einn dag. Dagskráin hófst á því að afhjúpaður var minningarskjöldur um borgarinnuna Vilhelmínu Lever sem fyrst kvenna kaus í almennum kosningum hér á landi, árið 1863. Kvennakór Akureyrar söng og Valgerður Sverrisdóttir Zontakona minntist Vilhelmínu sem var svo sannarlega á undan sinni samtíð. Við þurftum þá og við þurfum enn á svona konum að halda sagði Valgerður.
Í framhaldinu var boðið upp á hádegishressingu og hópefli í Zontahúsinu þar sem Sigríður Stefánsdóttir jafnréttisfulltrúi Akureyrarbæjar ávarpaði hópinn og konur skiptust á sögum frá liðnum Kvennafrísdögum. Í Zontahúsinu mátti einnig sjá hluta af sýningunni Hvað er svona merkilegt við það? - Störf kvenna í 100 ár í boði Þjóðminjasafnsins.
Að lokinni hádegishressingu og hópefli í Zontahúsinu var fjölmennt í Minjasafnið á Akureyri þar sem boðið var upp á leiðsögn um sýningarnar Ertu tilbúin, frú forseti? og Akureyri bærinn við Pollinn með augum Vilhelmínu Lever.
Það voru Zontakonur á Akureyri í samstarfi við Jafnréttisstofu, Akureyrarbæ og Minjasafnið á Akureyri sem stóðu að dagskránni.