- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, var í vikunni valinn formaður jafnréttisnefndar Evrópuráðsþingsins. Steingrímur er fyrsti karlmaðurinn til að sinna formennsku í nefndinni.Nefndin er yngsta nefndin á Evrópuráðsþinginu og var stofnuð árið 1998. Jafnréttisnefndin fjallar um jafnréttismál í víðum skilningi, kvenréttindi og baráttuna gegn ofbeldi gegn konum. Hún berst fyrir aukinni þátttöku kvenna á öllum sviðum samfélagsins. Á síðustu tveimur árum hefur nefndin beitt sér mikið í málefnum er lúta að mansali og vændi.
Evrópuráðsþingið var stofnað árið 1949. Alls eiga 47 ríki aðild að þinginu. Hlutverk þess er að standa vörð um mannréttindi, lýðræði og réttarríkið. Málefnanefndir þingsins eru alls 10. Nefndirnar vinna skýrslur og á grundvelli þeirra ályktanir, tilmæli og álit sem þingið tekur síðan til umræðu og afgreiðslu.
Málum, sem eru samþykkt í þinginu, er komið áleiðis til aðildarlanda Evrópuráðsþingsins í gegnum ráðherranefnd Evrópuráðsins eða beint í þeim tilvikum sem þingmenn taka málin upp í sínum þjóðþingum. Auk þess sinnir Evrópuráðsþingið kosningaeftirliti, velur dómara til setu í Mannréttindadómstól Evrópu og stendur fyrir baráttuherferðum um ákveðin mál. Eins og er standa yfir herferðir gegn heimilisofbeldi og mansali.
Auk Steingríms skipa Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins þau Guðfinna S. Bjarnadóttir og Ellert B. Schram.