Gátlisti við skipulagningu viðburða

Tryggjum lýðræðislega þátttöku
Gátlisti við skipulagningu viðburða

 

Jafnréttisstofa hefur gefið út bæklinginn Tryggjum lýðræðislega þátttöku – Gátlisti við skipulagningu viðburða. Um er að ræða handhægan rafrænan bækling þar sem farið er yfir atriði sem hafa ber í huga þegar skipuleggja á viðburð sem hefur lýðræði og fjölbreytileika að leiðarljósi.

Með þessum bæklingi vill Jafnréttisstofa vekja athygli á þeim lögum* sem henni er falið að hafa eftirlit með, þau eiga það öll sameiginlegt að banna mismunun og tryggja jafnan aðgang fólks m.a. að opinberum viðburðum.

Samfélagsgerð okkar setur skorður sem oft eru ómeðvitaðar og til þess að við njótum öll jafnra tækifæra þarf markvisst að draga úr aðstæðum sem leiða til mismununar. Við skipulagningu viðburða getur átt sér stað óbein mismunun þrátt fyrir að það sé ekki ætlunin. Bæklingurinn er hugsaður sem tæki til þess að styðja skipuleggjendur sem vilja líta í eigin barm og stíga markviss skref í átt að því að tryggja lýðræðislega þátttöku í viðburðum á þeirra vegum.

Útgáfan er rafræn og hugsuð sem lifandi útgáfa sem á að taka breytingum eftir því sem reynsla kemst á notkun bæklingsins. Jafnréttisstofa óskar því eftir að fá sendar ábendingar um efni hans.

Jafnréttisstofa lítur björtum augum til framtíðar og vonar að þegar okkur gefast aftur tækifæri til að skipuleggja viðburði með hefðbundnum hætti gerum við það með lýðræðislega þátttöku að leiðarljósi.

 

* Það eru lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020, lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna nr. 85/2018 og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu nr. 86/2018.