- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Ráðstefna um samvinnu í heimilisofbeldismálum verður haldin þann 18. október 2018 á Icelandair hótel Reykjavík Natura kl. 10.00–16.00. Ráðstefnan er ætluð fagfólki sem vinnur með ofbeldi í nánum samböndum og almenningi sem vill láta sig málefnið varða.
Hver er staðan í heimilisofbeldismálum og hver hefur þróunin verið undanfarin ár? Fjallað verður um nokkur fyrirmyndarverkefni, meðal annars verkefnið Saman gegn ofbeldi, samvinnuverkefni í heimilisofbeldismálum með aðkomu fjölbreytts hóps fagsfólks, verklag bráðamóttöku Landspítalans í heimilisofbeldismálum, Heimilisfrið, meðferðarúrræði fyrir gerendur og reynsluna af starfsemi Bjarkarhlíðar.
Kynntar verða nýjar rannsóknir um ofbeldi í nánum samböndum á Íslandi. Meðal annars verður fjallað um rannsókn á upplifun kvenna af sáttameðferð sýslumanns við skilnað, heimilisofbeldi gagnvart fötluðu fólki, reynslu af því að leita sér hjálpar og ná bata eftir ofbeldissamband auk þess sem skoðuð verður staða erlendra kvenna sem hafa upplifað heimilisofbeldi.
Fjallað verður um útvarpsþættina Kverkatak, sem Viktoría Hermannsdóttir og Þórhildur Ólafsdóttir gerðu fyrir Ríkisútvarpið. Þáttastjórnendur ætla að deila með ráðstefnugestum hvernig það var að gera þættina. Í þáttunum var fjallað um heimilisofbeldi, eðli þess, áhrif og afleiðingar.
Í lok ráðstefnunnar verða pallborðsumræður með þolendum heimilisofbeldis þar sem rætt er um hvernig þau upplifa samfélagið og þjónustu hins opinbera við úrlausn vanda þeirra og þær hindranir sem komu upp þegar þau voru að komast út úr aðstæðunum. Einnig verður rætt við þau um hvernig þau sjái fyrir sér að þjónusta hins opinbera geti gert betur við þolendur í heimilisofbeldismálum.
Á ráðstefnunni verður hrint úr vör vitundarvakningunni Þú átt VON sem byggir á reynslu þolenda ofbeldis á því að komast út úr aðstæðunum og þeim úrræðum sem í boði eru.
Hægt verður að kaupa hádegisverð á staðnum fyrir 2.900 kr.
Gott aðgengi er að salnum og aðgangur er ókeypis.
Ekki láta þennan viðburð fram hjá þér fara!
Ráðstefnan er hluti af verkefninu Byggjum brýr – brjótum múra sem er styrkt af ESB og unnið af Jafnréttisstofu í samvinnu við Akureyrarbæ, dómsmálaráðuneytið, Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, Lögregluna á Norðurlandi eystra, Lögregluna á Suðurnesjum, Reykjavíkurborg, Ríkislögreglustjóra og velferðarráðuneyti.