- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Yfir 100 manns sóttu ráðstefnu um kynbundið ofbeldi sem haldin var síðastliðinn föstudag á Akureyri af Jafnréttisstofu og Háskólanum á Akureyri. Erindi ráðstefnunnar voru fjölbreytt og fræðandi og gáfu greinargóða mynd af afleiðingum kynbundins ofbeldis og hlutverki yfirvalda, stofnana, sérfræðinga og almennings þegar um kynbundið ofbeldi er að ræða. Sjónum var beint að ofbeldi í nánum samböndum, ofbeldi á meðgöngu og börnum sem verða fyrir og beita aðra ofbeldi eða áreiti. Sérfræðingar af ólíkum sviðum héldu erindin og ber þar að nefna lögfræðinga, sálfræðinga, ljósmæður, nemendur og kennara. Mikil áhersla var lögð á mikilvægi þess að opna umræðuna um þessi mál, auka fræðslu og leita leiða til að sporna við þeirri klámvæðingu sem ýtir undir óeðlilega kynhegðun barna, unglinga og fullorðinna.
Í hádegishléi ráðstefnunnar fór fram fundur þar sem aðgerðaráætlun Akureyrarbæjar gegn kynbundnu ofbeldi og ofbeldi gegn börnum var kynnt fyrir starfsfólki félagsþjónustunnar í hinum ýmsu sveitarfélögum en aðgerðaáætlunin er fyrsta aðgerðaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi á sveitarstjórnarstiginu hérlendis. Aðgerðaáætlunin hefur verið í vinnslu síðastliðið ár og lögð var áhersla á að aðilar í félagsþjónustu bæjarins auk sérfræðinga kæmu að gerð hennar. Í aðgerðaáætluninni er lögð mikil áhersla á fræðslu til starfsfólks bæjarins og gerð fræðsluefnis auk þess að kortleggja þessi mál innan bæjarkerfisins.
Erindi og glærur verður hægt að nálgast á næstu dögum undir flipanum Kynbundið ofbeldi á heimasíðu Jafnréttisstofu.
Sigrún Sigurðardóttir, Doktorsnemi í lýðheilsuvísindum: "Sannleikurinn gerir mann frjálsan" Kynferðislegt ofbeldi gegn drengjum.
Elva Dögg Ásudóttir, MLnemi í lögfræði við HR: Ofbeldi í nánum samböndum, niðurstöður rannsóknum á gögnum Kvennaathvarfsins.
Anna Kristín Newton, réttarsálfræðingur hjá Fangelsismálastofnun: Ungir gerendur, kynning á meðferðarúrræðum.
Svala Ísfeld, sérfræðingur í refsirétti og afbrotafræði: "Því ekki að segja frá því sem gerðist?"
Kristján Már Magnússon, sálfræðingur: Meðferðarúrræði fyrir gerendur
Ástþóra Kristinsdóttir, hjúkrunarfræðingur, ljósmóðir og meistaranemi við HA: Maður, kona, barn: Reynsla kvenna af heimilisofbeldi á meðgöngu