- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra heimsótti Jafnréttisstofu þann 25. ágúst. Forsætisráðherra sem fer fyrir ráðherranefnd um jafnréttismál kynnti stefnu og áherslur stjórnvalda og einnig gafst á fundinum tækifæri til að ræða ýmsa þá málaflokka jafnréttismála sem hafa verið áberandi síðustu misseri.
Starfsfólk Jafnréttisstofu kynnti fyrir forsætisráðherra þær áskoranir sem stofnunin og fleiri aðilar standa frammi fyrir vegna innleiðingar ákvæða í lögum um skyldur atvinnurekenda í jafnlaunamálum. Eins og þekkt er eiga stærstu fyrirtæki landsins, þar sem starfa 250 eða fleiri, að vera komin með jafnlaunavottun í lok þessa árs. Þá gafst einnig tækifæri til að ræða áskoranir og skyldur stjórnarráðsins í jafnréttismálum og stöðu forsætisráðuneytis til að styðja við og samræma jafnréttisstarf stjórnvalda sem hluta af samhæfingu lykilverkefna sem ganga þvert á ráðuneyti.
Starfsfólk fékk að heyra af vinnu stýrihóps um úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi. Stýrihópurinn sem forsætisráðherra skipaði í byrjun árs skal koma til framkvæmdar samhæfðum aðgerðum til að vinna gegn kynferðislegri og kynbundinni áreitni. Hópurinn hefur einnig það hlutverk að tryggja að unnið verði eftir Istanbúl-sáttmála Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn heimilisofbeldi.
Jafnréttisstofa þakkar forsætisráðherra fyrir góða heimsókn.