- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Komin er út árleg skýrsla Jafnréttisstofu um nefndir, ráð og stjórnir á vegum ráðuneytanna. Í skýrslunni er að finna greiningu á skiptingu kynjanna í nefndum, stjórnum og ráðum á árinu 2021 auk þess sem farið er yfir þróun síðasta áratuginn.
Þegar litið er til meðaltals á skiptingu nefndarsæta í öllum ráðuneytum eftir kyni kemur í ljós að á árinu 2021 var hlutur kvenna 51% og hlutur karla 49%. Er þetta þriðja árið í röð sem konur eru fleiri en karlar.
72% starfandi nefnda eru rétt skipaðar og fækkar um 2% frá síðasta ári. Er það í fyrsta sinn sem hlutfallið lækkar milli ára, frá því lög um skipan nefnda tóku gildi árið 2008.
Samkvæmt 28. gr. jafnréttislaga nr. 150/2020 á hlutfall kvenna og karla í nefndum, ráðum og stjórnum að vera sem jafnast og ekki minna en 40% þegar fulltrúar eru fleiri en þrír. Tilnefningaraðili á að tilnefna karl og konu, en heimilt er að víkja frá því þegar hlutlægar ástæður leiða til þess að ekki er mögulegt að tilnefna bæði karl og konu. Við tilnefningar fólks með hlutlausa skráningu kyns, má þó ekki rýra hlut kvenna.
Jafnréttisstofa hefur eftirlit með framkvæmd jafnréttislaga og fær upplýsingar um skipan í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ráðuneytanna í árlegri greinargerð frá jafnréttisfulltrúum ráðuneytanna.