- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Síðastliðið sumar framkvæmdi KPMG könnun meðal íslenskra stjórnarmanna til að kanna bakgrunn þeirra og störf stjórna. KPMG hefur nú birt skýrslu um niðurstöður könnunarinnar og voru þær kynntar á morgunverðarfundi KPMG og og Viðskiptaráðs Íslands í morgunn. Könnunin náði til 280 stjórnamanna hjá fjármálafyrirtækjum, vátryggingafélögum, lífeyrissjóðum og framleiðslu- og þjónustufyrirtækjum sem eru á lista Frjálsrar verslunar yfir 300 stærstu fyrirtækin á Íslandi á árinu 2010.
Könnunin er fyrst og fremst hugsuð sem tilraun til að kortleggja hinn íslenska stjórnarmann og stjórnarstörf hans og gefa niðurstöðurnar vísbendingar um hvernig stjórnarmenn á Íslandi eru í dag, hvaða reynslu og menntun þeir hafa og ýmsar aðrar upplýsingar varðandi stjórnarstörf þeirra.
Þegar kynjavíddin í könnuninni er skoðuð koma nokkur áhugaverð atriði í ljós:
• Kynjahlutfall allra stjórnarmanna sem tóku þátt í könnuninni er 25% konur og 75% karlar. Þegar kynjahlutfall stjórnarmanna sem hafa verið 1-2 ár í stjórn er skoðað er hlutfallið 38% konur og 62% karlar. Hér er hugsanlega vísbending um að fjöldi kvenkyns stjórnarmanna sé að aukast samhliða nýliðun í stjórnum.
• 98% kvenkyns stjórnarmanna 50 ára eða yngri eru háskólamenntaðir samanborið við 82% karlkyns stjórnarmanna á sama aldri. Konur á þessum aldri eru í 74% tilvika með framhaldsmenntun í háskóla samanborið við 53% karla. Kvenkyns stjórnarmenn 50 ára eða yngri sem tóku þátt í könnuninni eru því með meiri menntun en karlkyns stjórnarmenn á sama aldri.
• Algengast er að kvenkyns stjórnarmenn séu beðnir um að taka að sér stjórnarsetu en hafa ekki náin tengsl við hluthafa og/eða stjórnendur félagsins/sjóðsins eða í 38% tilvika. Næstalgengast er að konur séu skipaðar af samtökum eða í 21% tilvika. Algengast er að karlkyns stjórnarmenn séu beðnir um að taka að sér stjórnarsetu en hafi ekki náin tengsl við hluthafa og/eða stjórnendur félagsins/sjóðsins eða í 26% tilvika. Næstalgengast er að karlar verði stjórnarmenn vegna eigin eignarhlutar í félaginu eða í 25% tilvika. Konur og karlar eru því að koma að stjórnum fyrirtækja á ólíkan hátt.
• 44% karlkyns stjórnarmanna og 17% kvenkyns stjórnarmanna í stjórnum lífeyrissjóða hafa ákveðið að gefa kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu að loknu yfirstandandi kjörtímabili á meðan 42% karla og 59% kvenna eru óákveðin. Hæsta hlutfall stjórnarmanna sem hafa ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu er hjá lífeyrissjóðunum eða 14% karla og 24% kvenna. Athygli vekur hversu margar konur hafa ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu eða eru óákveðnar eða alls 83% kvenkyns stjórnarmanna í stjórnum lífeyrissjóða. Þetta er einkum áhugavert í ljósi nýrrar lagasetningar sem tekur gildi 1. september 2013 og kveður á um lágmark 40% hvors kyns í stjórn lífeyrissjóðs. Við athugun KPMG í september 2011 á stjórnum 32 lífeyrissjóða kom í ljós að 19 lífeyrissjóðir þurfa að bæta við konu/m í stjórnina (einn lífeyrissjóður þarf að bæta við karli) til að stjórn verði í samræmi við löggjöfina. Lífeyrissjóðir þurfa því bæði að fá nýjar konur í stjórnir lífeyrissjóða til að uppfylla lagaskylduna og að fá konur í stað þeirra sem munu ekki gefa kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.
Niðurstaða könnunarinnar er sú að hinn íslenski stjórnarmaður er 51-60 ára karlmaður, viðskiptafræðimenntaður og hefur lokið háskólaprófi. Hann situr í einni stjórn í dag og hefur verið eitt ár í stjórn og fær greitt 50.000 - 150.000 kr. á mánuði í stjórnarlaun. Hann er framkvæmdastjóri eða forstjóri að aðalstarfi en telst vera óháður stjórnarmaður. Hann telur sig þekkja lagalega ábyrgð sína, nýtir sér Handbók stjórnarmanna og Leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja. Hann hefur setið í 10 eða fleiri stjórnum á starfsferli sínum og ver 6-10 klst. í stjórnarstörf á mánuði.
Skýrsluna í heild má lesa hér.