- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Hvergi í heiminum mælist meiri jöfnuður milli kynjanna en á Íslandi samkvæmt mælingum Alþjóðaefnahagsráðsins árið 2017 og trónir Ísland í efsta sæti 9. árið í röð. Í kynningu á niðurstöðunum er sérstaklega fjallað um hvað ræður góðri frammistöðu Íslendinga á þessu sviði.
Alþjóðaefnahagsráðið, (e. World Economic Forum -WEF) hefur birt skýrslur um stöðu kynjajafnréttis í heiminum (e. Global Gender Gap Report ) frá árinu 2006. Samkvæmt niðurstöðum fyrir árið 2017 eru Ísland, Noregur og Finnland í þremur efstu sætunum en lestina reka Sýrland, Pakistan og Jemen sem er í botnsæti þeirra 144 þjóða sem mælingin tekur til.
Kvarðinn sem WEF byggir mat sitt á (e. Global Gender Gap Index) felur í sér mælingar á fjórum sviðum sem taka til stöðu kynjajafnréttis á sviði heilbrigðis, menntunar, efnahagslífs og stjórnmála. Á efnahagssviðinu er m.a. horft til launamunar kynjanna, atvinnuþátttöku og kynjahlutfalla í hópi stjórnenda. Menntunarþátturinn er metinn út frá menntunarstigi karla og kvenna, heilbrigðisþátturinn tekur m.a. mið af lífslíkum og jafnfrétti á sviði stjórnmála er metið út frá stjórnmálaþátttöku kynjanna en staða Íslands árið 2017 miðar við hlutfall kvenna á Alþingi fyrir kosningarnar 28. október sl.
BAKSLAG Í JAFNRÉTTISMÁLUM Á HEIMSVÍSU
Ein af meginniðurstöðum skýrslu þessa árs er að eftir tíu ára hægfara framfarir á heimsvísu þar sem kynjabilið hefur minnkað, sýna niðurstöður ársins 2017 bakslag. Dregið hefur sundur með körlum og konum á öllum sviðum, hvort sem horft er til heilbrigðis, menntunar, stjórnmála eða efnahagslífs. Bakslagið mælist þó einkum þegar horft er til stöðunnar á vinnumarkaði og í stjórnmálum.
Klaus Schwab, stofnandi og stjórnarformaður WEF, segir kynjamisréttið fela í sér gríðarlega sóun á mannauði og með minni verðmætasköpunar. Það sé því jafnt siðferðilega og efnahagslega bráðnauðsynlegt að sigrast á þeim þáttum sem standa jafnrétti kvenna og karla fyrir þrifum.
HVAÐ RÆÐUR GÓÐUM ÁRANGRI ÍSLANDS?
Samkvæmt mælingum WEF hefur 87% kynjabilsins á Íslandi verið brúað og frá því að WEF hóf mælingar árið 2006 hefur kynjabilið minnkað um 10% sem skipar Íslandi í sæti þeirra ríkja þar sem jafnrétti kynjanna eykst hvað hraðast. Árangur Íslands sem skorar hæst á jafnréttiskvarða WEF níunda árið í röð vekur athygli og óskaði WEF eftir umfjöllun frá jafnréttisteymi velferðarráðuneytisins um það hvaða þættir kunni helst að ráða góðum árangri landsins á sviði jafnréttismála. Grein þessa efnis var birt á vef WEF samhliða skýrslunni Global Gender Gap Report og er aðgengileg hér að neðan.
Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra segir ánægjulegt að mælingin endurspegli þann árangur sem markvissar aðgerðir á sviði kynjajafnréttismála hafa skilað undanfarin áratug. „Það er mikill heiður fyrir Ísland að vera enn og aftur í toppsæti lista Alþjóðaefnahagsráðsins og þeim heiðri fylgir sú ábyrgð að halda áfram að vera til fyrirmyndar og tryggja að fullu jöfn tækifæri og jafna stöðu kvenna og karla á öllum sviðum samfélagsins.“
KYNNINGARMYNDBAND UM JAFNRÉTTI Á ÍSLANDI
WEF hafa birt stutt myndband um stöðu jafnréttismála á Íslandi með áherslu á aðgerðir til þess að draga úr launamun kynjanna, m.a. með lögleiðingu jafnlaunavottunar. Myndbandið er aðgengilegt á facebook og er vísað á það hér að neðan.
Global Gender Gap Report 2017
This is why Iceland ranks first for gender equality
https://www.facebook.com/worldeconomicforum/videos/10154881276321479/