- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Jafnréttisdagar verða haldnir í næstu viku í Háskóla Íslands, frá 23.-25. september. Þar kennir ýmissa grasa, og verður fjallað um jafnrétti í víðum skilningi í styttri og lengri fyrirlestrum og málþingum, og auk þess verða viðburðir af ýmsu tagi, t.a.m. lifandi bókasafn og kynning á ýmissi starfsemi innan skólans sem tengist jafnrétti.Jafnréttisdagar hefjast miðvikudaginn 23/9 kl. 11.40 með fyrirlestri Svandísar Svavarsdóttur, umhverfisráðherra, sem fer fram á táknmáli (en túlkað fyrir þau sem ekki tala táknmál) á Háskólatorgi 104 og ber titilinn:
Konur, karlar og umhverfið: Mikilvægi kynjasjónarmiða í umræðunni um loftslagsbreytingar
Dagskránni lýkur svo föstudaginn 25/9 með spurningakeppni með jafnréttisþema (Pub Quiz) á Háskólatorgi, sem hefst kl. 16, og strax á eftir spila svo Trúbatrixurnar Myrra og Elín Ey.
Dagskrána í heild má finna á jafnretti.hi.is á bæði íslensku og ensku, en meðal viðburða á Jafnréttisdögum eru:
-Málþingið Lært af sögunni - Endurreisn á grundvelli jafnréttis, þar sem fjallað verður um mikilvægi kynja- og jafnréttisfræðanna að endurreisn samfélagsins eftir hrunið, og þar flytja erindi þær Guðný Guðbjörnsdóttir, Irma Erlingsdóttir og Þorgerður Einarsdóttir, og málþingið setur Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ (miðv. 23/9 kl. 13-15, Háskólatorg 103)
-Völd og áhrif: Karlar og konur í fjölmiðlum, 20 mínútna fyrirlestur Gunnars Hersveins (fim 24/9 kl. 10, fer fram á Upplýsingaskrifstofu á 1. hæð í Aðalbyggingu HÍ)
-Ef normið er "straight", hvað verður um hin(segin)?, þar sem hugtakið gagnkynhneigt forræði (e. heteronormativity) verður krufið í erindi Þorvaldar Kristinssonar, og svo í umræðum undir stjórn Viðars Eggertssonar (fim 24/9 kl. 12-13, Askja N-131)
-Stefnumót við skurðpunkt, þar sem Þorgerður H. Þorvaldsdóttir mun fjalla um hugtakið samtvinnun (e. intersectionality) í erindi og í pallborðsumræðum verður rætt um hugtakið og gagnsemi þess, bæði fræðilega og sem verkfæri í jafnréttisstarfi (fim 24/9 kl. 14.10, Háskólatorg 101)
-The women´s movement in Iceland, þar sem Auður Styrkársdóttir mun fjalla um sögu kvennahreyfinga á Íslandi (á ensku) (fim 24/9 kl. 15 í fyrirlestrasal Þjóðarbókhlöðunnar á 2. hæð, skráning nauðsynleg með tölvupósti á att@hi.is)
-Málþing um kvikmyndina Umoja: Þorpið þar sem karlar eru bannaðir, sýnt úr heimildarmynd um þorpið og spjall með þeim Jean Crousillac og Jean Marc-Sainclair sem gerðu myndina (fös 25/9 kl. 12-13.30 í Norræna húsinu)
-Málþingið Disability and diversity in universities, en þar mun fræðikonan Sheila Riddell fjalla um aðgengi fatlaðs fólks að háskólamenntun, en hún er prófessor við Háskólann í Edinborg og forstöðukona Centre for Research in Education Inclusion and Diversity við sama háskóla. Pallborðsumræður verða á eftir undir stjórn Rannveigar Traustadóttur (fös 25/9 kl. 14.10-16 á Háskólatorgi 103, fer fram á ensku)