Jafnréttisfræðsla í leikskólum og grunnskólum

Nýtt verkefni sem miðar að því að auka og efla jafnréttis- og kynjasjónarmið í skólastarfi, þ.e. í leikskólum og grunnskólum, er að hefja göngu sína. Með markvissri fræðslu og umræðu frá upphafi skólagöngu er hægt að gefa ungu fólki tækifæri til að taka ákvarðanir varðandi framtíð sína á eigin forsendum óháð staðalmyndum kynjanna og hefðbundnu starfsvali. Jafnréttisstofa hefur umsjón með verkefninu og hefur verið auglýst eftir verkefnisstjóra.
Meginmarkmið verkefnisins eru að efla jafnréttisfræðslu, að samþætta kynjasjónarmið í kennslu og að auka upplýsingaflæði um jafnréttismál. Verkefnið er tvíþætt: sett verður upp vefsíða þar sem upplýsingar um jafnréttisfræðslu verða aðgengilegar, auk upplýsinga um verkefni sem nota má í skólastarfi. Einnig verða fengnir grunnskólar og leikskólar til að sinna tilraunaverkefnum á sviði jafnréttismála og að nota vefsíðuna til kynningar á þeim. 

Aðilar að verkefninu eru félagsmálaráðuneytið, Jafnréttisstofa, Jafnréttisráð, Reykjavíkurborg, Hafnarfjarðarbær, Kópavogsbær og Akureyrarbær. Einnig hafa  eftirfarandi aðilar þegar ákveðið að styrkja þetta verkefni: Menntamálaráðuneytið, Þróunarsjóður grunnskóla, Samtök Atvinnulífsins, Landsvirkjun og Sparisjóður Norðlendinga. Leikskólar og grunnskólar hjá Akureyrarkaupstað, Hafnarfjarðarkaupstað, Reykjavíkurborg og Kópavogsbæ munu taka þátt í verkefninu.


Verkefnastjóri
Jafnréttisstofa óskar eftir að ráða verkefnastjóra í hálft starf til tólf mánaða. Um er að ræða nýtt og spennandi þróunarverkefni á sviði jafnréttismála og jafnréttisfræðslu.

Verkefnið miðar að því að auka og efla jafnréttis- og kynjasjónarmið í skólastarfi, þ.e. í leikskólum og grunnskólum. Að verkefninu standa félagsmálaráðuneytið, Jafnréttisstofa, Jafnréttisráð, Hafnarfjarðarbær, Reykjavíkurborg, Kópavogsbær og Akureyrarbær. Verkefnið er tvíþætt: Annars vegar að setja upp vefsíðu þar sem upplýsingar um jafnréttisfræðslu verða aðgengilegar. Hins vegar að vinna með grunnskólum og leikskólum sem hafa áhuga á að sinna tilraunaverkefnum á sviði jafnréttismála og nota vefsíðuna til kynningar á þeim.

Helstu verkefni:

  • Mótun og þróun verkefnisins í samráði við verkefnisstjórn.
  • Verkefnastjórnun og samstarf meðal annars við tilraunaskóla.
  • Söfnun fræðsluefnis, textavinnsla og innsetning á vefsíðu.
  • Umsjón með uppsetningu vefsíðu.
  • Kynning verkefnisins.
  • Mat og skýrslugerð. 

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Reynsla eða menntun á sviði jafnréttismála nauðsynleg.
  • Háskólamenntun nauðsynleg.
  • Reynsla af kennslu eða námskeiðahaldi nauðsynleg.
  • Reynsla af verkefnastjórnun æskileg.
  • Hæfni til að tjá sig í ræðu og riti á íslensku, ensku og einu norrænu tungumáli.
  • Sveigjanleiki og hæfni í mannlegum samskiptum.

Leitað er að einstaklingi sem er sjálfstæður og sýnir frumkvæði. Viðkomandi þarf að geta hafið störf sem fyrst. Launakjör eru samkvæmt samningum Jafnréttisstofu og viðkomandi stéttarfélags. Til greina kemur að verkefnastjóri sé staðsettur annaðhvort á Akureyri eða í Reykjavík. Vakin er athygli á að starfið stendur opið jafnt konum og körlum. 

Umsóknarfrestur er til og með 1. desember næstkomandi. Umsóknir sendist til Jafnréttisstofu, Borgum við Norðurslóð, 600 Akureyri, eða með tölvupósti. Með umsókn skal fylgja ferliskrá og upplýsingar um menntun. Nánari upplýsingar veitir Hjálmar Sigmarsson í síma 460 6200. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun hefur verið tekin um ráðningu.