- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Á morgun fimmtudag, þann 20. nóvember, munu þær Auður Magndís Auðardóttir og Dr. Íris Ellenberger flytja erindi í fyrirlestraröð Akureyrarakademíunnar. Erindið nefna þær „Kynjajafnrétti fyrst. Reddast þá hitt? Um jafnréttisbaráttu í margbreytilegu samfélagi”. Fyrirlesturinn hefst klukkan 17:00 og er haldinn í Deiglunni, húsnæði Listasafnsins á Akureyri.
Auður Magndís er félagsfræðingur og verkefnastjóri jafnréttis á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar. Íris Ellenberger er sjálfstætt starfandi sagnfræðingur og hefur sérstaklega einbeitt sér að hinsegin femínískum aktívisma. Í erindi sínu munu þær fjalla um Kvennaráðstefnuna Nordiskt Forum, sem fór fram í ár í Malmö dagana 12. til 15. júní.
Í kjölfar kvennaráðstefnunnar varð framkvæmd hennar tilefni umræðu um aðgengi ólíkra hópa og sjónarmiða í jafnréttisbaráttunni. Í erindinu verður fjallað um þessa umræðu – og þá gagnrýni sem í henni felst, í ljósi samtvinnunar kyns, kyngervis, kynhneigðar og fötlunar.
---
Akureyrarakademían er félag sjálfstætt starfandi fræðimanna á Norðurlandi, sem stofnað var vorið 2006. Akureyrarakademían stendur reglulega fyrir fundum, fyrirlestrum, málþingum og uppákomum. Upplýsingar um fyrirlestraröðina 2014-2015 má finna hér