- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttisráðherra heimsótti Jafnréttisstofu síðastliðinn föstudag og átti góða stund með starfsfólki þar sem hann fór meðal annars yfir það helsta sem er á döfinni í jafnréttismálum. Bar þar hæst frumvarp jafnréttisráðherra um jafnlaunavottun sem nú er til afgreiðslu í þinginu. Sagðist ráðherra binda miklar vonir við vottunina sem verkfæri í baráttunni við kynbundinn launamun.
Einnig voru til umræðu frumvörp um jafna meðferð á vinnumarkaði og um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna sem ráðherra lagði fyrir þingið í byrjun apríl. Frumvörpin eru liður í innleiðingu mismununartilskipana Evrópusambandsins og verði þau að lögum er um mikilvæga réttarbót að ræða fyrir ýmsa minnihlutahópa.
Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttisráðherra hefur verið ötull talsmaður jafnréttismála bæði innan og utan þings og er hann t.d. fyrsti íslenski ráðherrann sem ber jafnrétti í titli sínum.