- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Með vísan til fjölmiðlaumfjöllunar um myndbandið Einn maður, ein kona sem birt er á fræðslusíðu Votta Jehóva undir flokknum Börn hefur Jafnréttisstofa sent Vottum Jehóva bréf. Með bréfinu vill Jafnréttisstofa vekja athygli þeirra á að í gildi eru hjúskaparlög nr. 31/1993 og gera þau ekki greinarmun á hjónaböndum fólks af gagnstæðu kyni eða fólks af sama kyni.
Þá vill Jafnréttisstofa einnig vekja athygli á að í gildi eru lög um jafna meðferð utan vinnumarkaðar nr. 85/2018. Lögin gilda um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar.
Markmið laganna er að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga óháð þeim þáttum sem að ofan eru taldir. Skv. lögunum er almennt bann við mismunun á öllum sviðum samfélagsins vegna m.a. kynhneigðar og teljast fyrirmæli um mismunun sem og áreitni þegar hún tengist ofangreindum þáttum vera mismunun.
Í lögunum er sérstaklega talað um að kennslu- og námsgögn skuli þannig úr garði gerð að ekki sé mismunað á grundvelli þeirra þátta sem lögin taka til.