- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Alþingi hefur ályktað að Ásta R. Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, feli Jafnréttisstofu að hrinda af stað aðgerðum til að efla hlut kvenna í sveitarstjórnum. Hlutur kvenna í sveitarstjórnum hefur aukist mjög hægt, þrátt fyrir umræðu um mikilvægi þess að fjölga konum í stjórnmálum á undanförnum árum. Konur voru þannig tæp 36% allra sveitarstjórnarmanna á landinu eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar 2006. Hlutfall kvenna í nefndum, ráðum og stjórnum sveitarstjórnarmanna var svipað.Konur eru í meirihluta í sveitarstjórnum í tíu sveitarfélögum á landinu, en í sjö sveitarfélögum er engin kona meðal sveitarstjórnarmanna. Einungis fjórðungur oddvita sveitarstjórna er konur. Sveitarstjórnarkosningar verða næst haldnar vorið 2010.
Í greinargerð með þingsályktunartillögunni, sem samþykkt var á Alþingi í vikunni, segir að brýnt sé að tryggja að sambærilegt bakslag verði ekki í sveitarstjórnarkosningunum eins og varð í alþingiskosningum 2003, þegar konum fækkaði miðað við kosningarnar á undan. Jafnframt segir að Jafnréttisstofu sé falið þetta verkefni, þar sem stofan búi yfir mikilli þekkingu á stöðu kvenna í samfélaginu, en tekið er fram að fjárveitingar til Jafnréttisstofu þyrftu að aukast samhliða slíkum aðgerðum.
Félags- og tryggingamálaráðherra segir í frétt frá ráðuneytinu að mjög mikilvægt sé að fjölga konum í sveitarstjórnum því jafnræði milli kynja í stjórnmálum eykur líkurnar á því að hagsmunir heildarinnar séu hafðir að leiðarljósi þegar ákvarðanir eru teknar. Þá segir í fréttinni að lögð verði áhersla á samstarf við samgönguráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og stjórnmálaflokkana sem bjóða fram til sveitarstjórna.
Þingsályktunartillöguna má lesa hér.