Jafnréttisþing og fræðslufundir í Ísafjarðarbæ

Jafnréttismál hafa verið í brennidepli í Ísafjarðarbæ að undanförnu en Grunnskólinn á Ísafirði hélt  nýverið metnaðarfullt jafnréttisþing þar sem allir nemendur í 6. - 10. bekk tóku þátt og var þeim skipt í hópa þvert á árganga. Elstu nemendur skólans stýrðu umræðum í sínum hópum en þessir nemendur fengu fyrir þingið sérstakar leiðbeiningar og þjálfun í hópstjórn. Bergljót Þrastardóttir, sérfræðingur hjá Jafnréttisstofu, tók þátt í deginum með innleggi í upphafi þingsins og fylgist síðan með vinnu hópanna sem var einkar áhugaverð og fróðleg. Nemendur ræddu saman um gildi þess fyrir stráka og stelpur að lifa í jafnréttissinnuðu samfélagi og settu fram hugmyndir sínar um hvað nemendur, starfsfólk og foreldrar geta gert til að auka jafnrétti í skólanum, heima og jafnvel víðar. 
Í kjölfar jafnréttisþingsins buðu Félagsmálanefnd Ísafjarðarbæjar og Jafnréttisstofa upp á opinn fræðslufund um kynjasamþættingu í Stjórnsýsluhúsinu þar sem mögulegar leiðir til innleiðingar voru ræddar og hvernig sveitarfélög geta tryggt réttláta dreifingu gæða með því að nýta aðferðafræði kynjasamþættingar. 

Í kjölfar fræðslufundarins hitti Bergljót fulltrúa úr jafnréttisnefnd Menntaskólans á Ísafirði sem eru að setja saman jafnréttisáætlun skólans um þessar mundir en Jafnréttisstofa kallar nú í annað sinn eftir jafnréttisáætlunum frá framhaldsskólum landsins.