- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Á jafnréttistorgi (félagsvísindatorgi) miðvikudaginn 26. október, kl. 12.00-12.50, mun dr. Guðný Gústafsdóttir fjalla um spurninguna ímynd og staða íslenskra kvenna – ákveðin mótsögn? og eiga samtal við áheyrendur um efnið. Jafnréttistorgið er í samstarfi Jafnréttisstofu og Hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri.
Ímynd kvenna á Íslandi samtímans hefur verið samofin kynjajafnrétti. Ímyndin á rætur í sögunni og var á síðustu áratugum styrkt með félagslegum athöfnum, svo sem kosningu Vigdísar Finnbogadóttur sem forseta árið 1980 og framboði Kvennalista til Alþingis. Þegar ímyndin er mátuð við stöðu kvenna kemur í ljós ákveðin mótsögn. Þrátt fyrir framgang kvenna, formlegt kynjajafnrétti, mikla menntun og atvinnuþátttöku, hafa völd og áhrif kvenna í hinu opinbera rými haldist takmörkuð. Í doktorsritgerðinni var leitast við að varpa ljósi á þessa mótsögn með því að greina hugmyndir um kvenleika og þann þegnrétt sem þeim fylgdi í orðræðu tímarita sem gefin voru út á tímabilinu 1980-2000. Ímynd hins kvenlega þegns á Íslandi samtímans er greind með hliðsjón af menningarbundnum, pólitískum og hugmyndafræðilegum áhrifavöldum.
Dr. Guðný Gústafsdóttir er menntuð í félagsfræði og norrænum og þýskum bókmenntum, auk rekstrar- og viðskiptafræði. Hún hefur meistarpróf (MA) í kynjafræði frá Háskóla Íslands 2009, og doktorspróf (PhD) í kynjafræði frá Háskóla Íslands 2016. Guðný starfar við kennslu og rannsóknir við Háskóla Íslands.
Torgið verður í stofu M102 og er öllum opið án endurgjalds.