Kallað eftir upplýsingum frá framhaldsskólum

Jafnréttisstofa hefur kallað eftir upplýsingum frá framhaldsskólunum um stöðu aðgerða í jafnréttisáætlunum.

Á grundvelli 5. gr. laga nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttislaga óskar Jafnréttisstofa eftir upplýsingum frá framhaldsskólum um framkvæmd laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

Í 14. gr. laganna er fjallað um ábyrgð yfirmanna stofnana, til að gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og notendur þjónustu verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni á vinnustað, í stofnun, félagsstarfi eða skólum. Í jafnréttisáætlunum skal tilgreina hvaða ráðstafanir þetta eru og hvernig þeim er fylgt eftir. Í 21. gr. laganna er jafnframt fjallað um bann við mismunun í skólum og öðrum menntastofnunum.

Jafnréttisstofa óskar eftir stöðumati á þessum þætti í jafnréttisáætlunum framhaldsskólanna. Óskað er eftir því að framhaldsskólarnir sendi Jafnréttisstofu gildandi viðbragðsáætlun. Ásamt því er óskað eftir greinargerð frá framhaldsskólunum um þær fyrirbyggjandi ráðstafanir sem hafa verið gerðar sbr. 14. grein.