- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Jafnréttisstofa hefur tekið saman yfirlit um stöðu kynja á framboðslistum fyrir sveitarstjórnarkosningar 2010. Karlar skipa í yfirgnæfandi meirihluta tilvika efsta sæti á framboðslistum, en eftir því sem horft er til fleiri frambjóðenda á listunum jafnast hlutur kynjanna nokkuð.Alls eru 185 listar í framboði til sveitarstjórna í kosningunum 29. maí næstkomandi. í 54 sveitarfélögum, af 76 sveitarfélögum á landinu, er haldin hlutbundin kosning. Í 18 sveitarfélögum er haldin óbundin kosning og í fjórum er sjálfkjörið í sveitarstjórn.
Á listunum eiga sæti 2846 einstaklingar, 1330 konur og 1516 karlar. Hlutfall kvenna og karla meðal frambjóðenda er því nokkuð jafnt, eða 47% konur og 53% karlar.
Ef litið er til þess hversu margar konur leiða framboðslista kemur í ljós skýr kynjamismunur. Af 185 framboðslistum eru 139 þeirra leiddir af körlum. Því eru aðeins 46 listar sem hafa konu í forsvari. Hlutfall kvenna í forsvari framboðslista er þannig einungis 25%. Karlar leiða 75% allra framboðslista.
Ef skoðað er hlutfall karla og kvenna meðal efstu tveggja frambjóðenda, jafnast hlutur kynjanna nokkuð. Í fyrstu tveimur sætum skipa karlar 56% sæta, meðan konur skipa 44% sæta. Konur eru því oftar í öðru sæti á framboðslista. Hlutfall kynja meðal efstu fjögurra á landsvísu er þannig að konur skipa 45% meðan karlar skipa 55% sæta.
Niðurstaðan er því sú að karlar skipa í yfirgnæfandi meirihluta tilvika efsta sæti á framboðslitum, en eftir því sem horft er til fleiri frambjóðenda á listunum jafnast hlutur kynjanna nokkuð.
Jafnréttisstofa hefur hér tekið saman upplýsingar um hlut kynja á framboðslistum, í þeim sveitarfélögum þar sem fram fer hlutbundin kosning. Í yfirlitinu er samantekt fyrir þau sveitarfélög þar sem fleiri en tveir listar bjóða fram.
SJÁ SKRÁ: Sveitarstj_framboð_2010.PDF