Kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnum eru ósáttir við laun en ánægðir með starfsumhverfi

Nú í aðdraganda kosninga, 31. maí 2014, sendi Jafnréttisstofa spurningakönnun til kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum. Könnunin var unnin í samstarfi við Dr. Grétar Þór Eyþórsson, stjórnmálafræðing og prófessor við viðskipta- og raunvísindasvið Háskólans á Akureyri. Ætlunin var að kanna viðhorf til starfskjara og starfsumhverfis með tilliti til kynjasjónarmiða og áhrifa þeirra á þátttöku í sveitarstjórnarstarfi.
Þátttakendur voru kjörnir fulltrúar síðustu sveitarstjórnarkosninga (árið 2010) auk þeirra sem tekið hafa sæti þeirra sem hafa hætt. Könnunin var send til 524 viðtakenda og alls svöruðu 267 eða 51%. Meðal þátttakenda voru konur 46% og karlar 54%.

Niðurstöður sýna að kjörnir fulltrúar eru ekki ánægðir með laun fyrir störf sín í sveitarstjórn en eru hinsvegar almennt ánægðir með starfsaðstæður og starfsumhverfi. Konur segjast verja, að jafnaði, færri tímum í hverri viku við sveitarstjórnarstörf en karlar. Þá eru karlar líklegri en konur til þess að eiga erfitt með að samræma einkalíf (fjölskyldu) og sveitarstjórnarstörf. Þegar spurt var að því hvort auðvelt sé að fylgja ákvæðum jafnréttislaga um jafna skipan kynja í nefndir og ráð, segist meirihluti svarenda telja það auðvelt.

Það  verður að teljast athyglisvert, í ljósi umræðu um mikilvægi þess að jafna hlut karla og kvenna í stjórnmálum, að þegar kjörnir fulltrúar eru spurðir hvort þeir gefi kost á sér til áframhaldandi starfa í sveitarstjórn eru niðurstaður nánast þær sömu hjá körlum og konum – þar sem 56% karla og 55% kvenna segjast sækjast eftir áframhaldandi setu í sveitarstjórn.




Mynd 1.  „Ég er ánægð(ur) með laun fyrir störf mín í sveitarstjórn“

Niðurstöður sýna að meirihluti svarenda er ósammála fullyrðingunni, þar sem alls 37% eru „Ósammála“ og 16% eru „Mjög ósammála“. Aðeins 4% kvenna eru „Mjög sammála“ og samsvarandi hlutdeild karla er 6%.






Mynd 2. „Ég er ánægð(ur) með skipulag funda (fundartíma) í tengslum við störf mín í sveitarstjórn“

Í afstöðu þátttakenda til fullyrðingarinnar kemur ekki fram afgerandi munur á svörum karla og kvenna. Meirihluti beggja kynja er sammála fullyrðingunni. Uppsafnað eru 22% kvenna „Ósammála" eða „Mjög ósammála“ og samsvarandi hlutdeild karla er 15%.








Mynd 3. „Hversu margir tímar í viku (að jafnaði) fara í sveitarstjórnarstörf hjá þér?“

Mestur munur milli karla og kvenna er í valflokkunum „0-5 tímar í viku“ og „Meira en 20 tímar“. Meðal kvenna söguðust 24% verja að jafnaði 0-5 tímum í viku í sveitarstjórnarstörf en 22% karla segjast verja meira en 20 tímum í viku í sveitarstjórnarstörf. Flestir svarendur telja að þeir verji á milli 5-10 tímum og 10-20 tímum í viku í sveitarstjórnarstörf.








Mynd 4. „Mér gengur vel að samræma einkalíf (fjölskyldu) og sveitarstjórnarstörf“

Athygli vekur að uppsafnað segjast 60% kvenna „Sammála“ (47%)  eða „Mjög sammála“ (13%) fullyrðingunni. Meirihluti karla sem tóku afstöðu til fullyrðingarinnar segjast „Sammála“ (44%) eða „Mjög sammála“ (7%).








Mynd 5. „Í mínu sveitarfélagi er auðvelt að fylgja ákvæðum laga um jöfn hlutföll kynja í nefndum og ráðum“

Í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla (nr. 10/2008) segir að við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skuli þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40%. Afstaða þátttakenda til fullyrðingarinnar sýnir að meirihluti svarenda telur það auðvelt – en sjá má nokkurn mun í afstöðu karla og kvenna. Meðal kvenna eru 58% sammála eða mjög sammála fullyrðingunni en meðal karla er samsvarandi uppsöfnuð hlutdeild 46%.








Mynd 6. „Sækist þú eftir áframhaldandi setu í sveitarstjórn?“

Í sveitarstjórnarkosningum 2010 hlutu 512 einstaklingar kosningu til sveitarstjórna. Þar af voru 308 karlar (60%) og 204 konur (40%). Athyglisvert verður að teljast að þegar kjörnir fulltrúar eru spurðir hvort þeir hafi gefið kost á sér til áframhaldandi starfa í sveitarstjórn eru niðurstöður nánast þær sömu hjá körlum og konum. 

___

Fyrirspurnir: tryggvi(hjá)jafnretti.is