Klámvæðing er kynferðisleg áreitni

Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar og MARK – miðstöð margbreytileika og kynjarannsókna við Háskóla Íslands gefa út bækling sem nefnist Klámvæðing er kynferðisleg áreitni. Bæklingurinn varpar ljósi á það hvernig konur upplifa klám á vinnustöðum og umræðu um útlit sitt í stað frammistöðu. Upplýsingar um þetta efni hafa ekki áður komið út á íslensku og er bæklingurinn ætlaður starfsfólki Reykjavíkurborgar og starfsfólki og nemendum Háskóla Íslands. Í bæklingnum er sýnt hvernig umræða um útlit ásamt niðurlægjandi myndbirtingum er beitt til þess að grafa undan trúverðugleika kvenna og styrk. Færð eru rök fyrir því að klámvæðing, hvort sem hún birtist í orðum eða myndmáli, sé kynferðisleg áreitni. Kynferðisleg áreitni er ekki liðin hvorki hjá Reykjavíkurborg né í Háskóla Íslands sem þýðir að klámvæðing er ekki liðin.
  
Bæklingurinn er á tveimur tungumálum íslensku og ensku og mun verða aðgengilegur á vef borgarinnar og Háskóla Íslands. Heimilt er að nota  efni hans til að vinna gegn klámvæðingu á vinnustöðum svo allir geti fengið að blómstra.

Í tilefni útgáfunnar verður haldin kynning föstudaginn 2. mars kl. 14:30 í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Dagskrá

Jón Gnarr, borgarstjóri flytur ávarp.
Klámvæðing er kynferðisleg áreitni. Thomas Brorsen Smidt flytur erindi en hann er höfundur bæklingsins.
Þó fyrr hefði verið. Þorgerður Einarsdóttir prófessor í kynjafræði.