- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Knattspyrnudeild Breiðabliks hlaut jafnréttisviðurkenningu Kópavogsbæjar sem afhent var á föstudag. Í umsögn jafnréttisnefndar bæjarins segir að Breiðablik hafi frá upphafi verið í fararbroddi í knattspyrnu kvenna og að það sé eina félagið sem hafi verið með á Íslandsmóti kvenna í knattspyrnu óslitið frá upphafi.Viðurkenningin var afhent við hátíðlega athöfn í Salnum í Kópavogi í dag. Einar Kristján Jónsson, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks, tók á móti viðurkenningunni úr hendi Unu Maríu Óskarsdóttur, formanns jafnréttisnefndar Kópavogs, og Gunnsteins Sigurðssonar, bæjarstjóra Kópavogs.
Þetta er í níunda sinn sem Kópavogsbær veitir jafnréttisviðurkenningu en markmiðið er að auka jafnréttishugsun í Kópavogi. Una María sagði við athöfnina í dag að Breiðablik hefði alla tíð litið svo á að stúlkur ættu að eiga sama kost á því að iðka knattspyrnu og drengir. Hún tók fram að knattspyrnudeild Breiðabliks væri sú fjölmennasta á landinu og að kvennalið Breiðabliks hefði til skamms tíma verið sterkasta kvennaknattspyrnulið landsins.
Í ár var bryddað upp á þeirri nýbreytni að veita einstaklingi hvatningarviðurkenningu fyrir verkefni á sviði jafnréttismála. Íris Arnardóttir, náms- og starfsráðgjafi Hörðuvallaskóla í Kópavogi, hlaut þá viðurkenningu í dag fyrir vinnu sína að jafnréttisfræðslu í skólanum.
Íris er menntaður leikskólakennari og náms- og starfsráðgjafi. Hún hefur unnið með börnum í mörg ár og á þessu ári koma út eftir hana tvær bækur með námsefni um jafnrétti.