- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Konur eru fjórðungur þeirra sem talað er við eða fjallað er um í fréttum heimspressunnar, en karlar eru þrisvar sinnum fleiri. Hér á landi er hlutfall kvenna í fréttum 20%, en annars staðar á Norðurlöndum á bilinu 23-31%. Þetta eru niðurstöður nýrrar alþjóðlegrar rannsóknar, Global Media Monitoring Project (GMMP) en rannsóknin fór fram 25. mars sl. og fólst í vöktun á helstu fréttamiðlum í 114 löndum. Kannað var hversu oft var talað við eða fjallað um konur, í hvers konar fréttum og í hvers konar hlutverkum, sem og hlutur fréttakvenna og fréttakarla.GMMP er umfangsmesta rannsókn á hlut karla og kvenna í fréttum og hefur rannsóknin verið framkvæmd á 5 ára fresti síðan 1995. Greindar voru fréttir í RÚV útvarpi og sjónvarpi, Stöð 2, Bylgjunni, Morgunblaðinu, Fréttablaðinu og í netmiðlunum dv.is, eyjan/?pressan.is, kjarninn.is, mbl.is, visir.is og rúv.is.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna m.a. að konur voru 20% þeirra sem talað er við eða fjallað um fréttum hérlendis, en karlar 80%. Hlutfallið hér er nokkuð lægra en á hinum Norðurlöndunum. Konur voru 23% þeirra sem rætt var við eða fjallað um í Danmörku, 24% í Noregi, 27% í Finnlandi og 31% í Svíþjóð.
Tæpur þriðjungur (31%) fréttanna í íslensku fréttamiðlum var fluttur eða skrifaður af konum og 69% af körlum. Fréttakonur flytja samkvæmt því hlutfallslega færri fréttir hér á landi en að jafnaði í þeim 114 löndum sem könnunin náði til en í heild eru samsvarandi hlutföll 37% konur og 63% karlar. Í Finnlandi voru 44% fréttanna skrifaðar eða fluttar af fréttakonum, í Danmörku 32% og í Noregi og Svíþjóð 35%.
Rannsóknir GMMP hafa m.a. sýnt að konur eru fremur umfjöllunarefni eða viðmælendur í fréttum um t.d. dægurmál, heilbrigðis- eða félagsmál, en síður í því sem gjarnan eru kallaðar „harðar fréttir“, eins og pólitík, efnahagsmál, og glæpir og afbrot. Ekki fundust skýrar vísbendingar um það í íslensku fréttunum. Konur voru t.d. viðmælendur í ríflega 30% frétta um efnahagsmál og í rúmlega 20% frétta um pólitík eða í meira mæli en ætla mætti út frá heildarfjölda þeirra í fréttum almennt.
Ekki var heldur að sjá að fréttakonur hér á landi fjölluðu síður um „hörð“ mál en fréttakarlar. Þannig segja/?skrifa fréttakonur 42% fréttanna um pólitík þótt þær séu mun færri en karlarnir.
Heildarniðurstöður rannsóknarinnar verða kynntar á Jafnréttisþingi sem fram fer 25. nóvember nk. á hótel Hilton Reykjavík Nordica