- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Aukin áhersla á jafnrétti og þrýstingur frá kvennahreyfingunni hafa ráðið úrslitum um að konum hefur fjölgað í stjórnmálum á Norðurlöndum undanfarin 15 ár. Í atvinnulífinu ráða karlar þó lögum og lofum enn sem fyrr. Þetta kemur fram í viðamiklu norrænu rannsóknaverkefni um kyn og völd í stjórnmálum og atvinnulífi.
Kyn og völd er fyrsta verkefnið þar sem valdastöður í stjórnmálum og atvinnulífi í norrænu ríkjunum og sjálfstjórnarsvæðum eru kortlagðar og bornar saman. Tuttugu fræðimenn hafa rannsakað þróunina á undanförnum 15 árum og lagt mat á aðgerðir sem gripið hefur verið til í jafnréttismálum. Norræna kvenna- og kynjarannsóknastofnunin, NIKK, sá um framkvæmd rannsóknarinnar að beiðni Norrænu ráðherranefndarinnar.
Ef miðað er við að kynjajafnvægi sé náð með 40-60% þátttöku hvors kyns má segja að það hafi tekist á þjóðþingum Finnlands, Íslands og Svíþjóðar. Í Danmörku og í Noregi er hlutur kvenna tæplega 40%.
- Fjöldi þingkvenna hefur aukist frá miðjum 10. áratug síðustu aldar í öllum ríkjunum nema Noregi en þar er fjöldi þeirra svipaður og áður, segir Kirsti Niskanen, rannsóknarstjóri hjá NIKK. Í Danmörku hefur hlutur kvenna aukist hægt, í Finnlandi og Svíþjóð nokkuð hraðar en á Íslandi tók hann greinilegan kipp úr 25 í 43 af hundraði.
Í norrænum ríkisstjórnum er tiltölulega jafnt hlutfall kynja. Aðeins í Finnlandi eru konur í meirihluta í ríkisstjórn (60% konur og 40% karlar) en í Noregi og á Íslandi eru jafn margar konur og karlar í ráðherrasætum. Í sænsku og dönsku ríkisstjórnunum eru rúmlega 40% konur.
Enn er þó áberandi að konur og karlar beita sér á ólíkum sviðum stjórnmálanna, þrátt fyrir að dæmi séu um að konur hafi haslað sér völl á hefðbundnum karlasviðum eins og fjármálum, utanríkis- og varnarmálum á undanförnum 15 árum.
Mestur árangur hefur náðst í áberandi embættum þar sem fylgst er vel með. Í sveitarstjórnum er ekki lögð jafn mikil áhersla á jafnréttismál og því er hlutur kvenna þar rýrari en í landsmálapólitíkinni. Aðeins í Svíþjóð má segja að náðst hafi kynjajafnvægi í sveitarstjórnum en þar eru konur 42% fulltrúa.
Í atvinnulífi hefur ekki orðið vart við sams konar breytingar og í stjórnmálunum. Fræðimennirnir báru saman valdakerfi í fyrirtækjum sem skráð eru í kauphöll og ríkisfyrirtækjum og komust að því að atvinnulífið er enn sem fyrr vígi karla með örfáum undantekningum. Hlutur kvenna í stjórnum einkafyrirtækja á Norðurlöndum er á bilinu 7-36%. Kynjajafnvægi er meira hjá ríkisfyrirtækjum þar sem þau lúta yfirleitt ákvæðum jafnréttislaga um jafnan hlut kynjanna.
Noregur sker sig greinilega úr en þar hafa verið settir kynjakvótar á stjórnir fyrirtækja sem skráð eru í kauphöllinni. Kvótarnir fela í sér að í stjórnum fyrirtækja eiga að vera að minnsta kosti 40% konur og karlar. Fjöldi kvenna í stjórnum allra fyrirtækja í kauphöllinni í Ósló (bæði norskra og erlendra fyrirtækja) hefur því aukist að meðaltali úr 9% í 2004 í 26% á árinu 2009. Í Svíþjóð hefur konum fjölgað úr 4% um síðustu aldamót í 19%. Fjölgunina í Svíþjóð má skýra með umræðu sem leiddi til þess að kauphöllin setti reglur sem kveða á um jöfn hlutföll kynjanna í stjórnum fyrirtækja. Í hinum löndunum hafa slíkar breytingar ekki verið gerðar.
Þó eru næstum eingöngu karlar í stjórnum einkafyrirtækja, jafnvel í þeim löndum þar sem hlutur kvenna hefur almennt aukist. Háttsettar konur er einkum að finna í fjármála- og fyrirtækjaþjónustu og heilbrigðisþjónustu.
Í sænskum fyrirtækjum sem skráð eru í kauphöllinni er hlutur kvenna meiri í stjórnum fyrirtækja með hátt gildi verðbréfa en minni hjá fyrirtækjum þar sem gildi verðbréfa er lægra.
Lokaskýrslur rannsóknarverkefnisins eru í tveimur bindum og má nálgast hér:
Kön och makt i Norden. Del I Skýrslur um stöðu mála
Kön och makt i Norden. Del II Samantekt og greinar