- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Konur eru hvattar til að leggja niður vinnu kl. 14:55 miðvikudaginn 24. október og fylkja liði á samstöðufund á Arnarhóli, kl. 15:30 undir kjörorðinu: Breytum ekki konum, breytum samfélaginu!
Baráttufundir er haldnir um allt land, sá stærsti á Arnarhóli en hann hefst kl. 15:30. Dagskrá fundarins er glæsileg – ávörp flytja Jóhanna Sigurðardóttir fyrrverandi forsætisráðherra, Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar, Claudie Wilson lögfræðingur hjá Rétti og Áslaug Thelma Einarsdóttir baráttukona. Kvennakórarnir Vox feminae, Kötlurnar, Léttsveit Reykjavíkur og Múltíkúltí – fjölþjóðlegur sönghópur kvenna munu taka lagið saman. Þá koma Reykjavíkurdætur fram, Karitas Mörtudóttir Bjarkadóttir flytur ljóð og leikkonurnar Aldís Amah Hamilton, Ragnheiður Steindórsdóttir og Esther Talía Casey flytja örverk eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur. Fundarstýrur eru Ilmur Kristjánsdóttir og Saga Garðarsdóttir.
Á fundinum verða lesnar upp kröfur samstöðufunda kvenna á Íslandi til stjórnvalda, atvinnurekenda, stéttarfélaga og samfélagsins alls.
Á fundinum á Arnarhóli verða tveir táknmálstúlkar og stór skjár sem varpar dagskránni á sviðinu á fundinum. Fyrir framan sviðið er pallur með rampi fyrir hjólastóla. Rútur og farartæki hreyfihamlaða hafa leyfi til að stoppa á planinu fyrir framan Hörpu á meðan fundi stendur og bílastæðið á móti Skúlagötu 4 er sömuleiðis frátekið fyrir bíla hreyfihamlaðra.
Staðfestir fundir eru boðaðir á Akureyri, Bifröst, Dalvík, Grundarfirði, Ísafirði, Mývatnssveit, Neskaupstað, Ólafsvík, Reyðarfirði, Selfossi, Skaptárhreppi og Varmahlíð en fleiri munu ugglaust bætast í hópinn.