- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Forsætisráðherra mun úthluta styrkjum til rannsókna á sviði jafnréttismála úr Jafnréttissjóði á degi Sameinuðu þjóðanna, 24. október næstkomandi á morgunverðarmálþingi á Grand Hótel Reykjavík við Sigtún. Styrkirnir eru fjórir og eru samtals að upphæð 8,6 mkr.Jafnréttissjóður er rannsóknarsjóður á vegum forsætisráðuneytisins sem settur var á laggirnar árið 2005 í tilefni af 30 ára afmæli kvennafrídagsins. Tilgangur sjóðsins er að efla kynjarannsóknir og stuðla þannig að bættri stöðu kvenna og karla og framgangi jafnréttis.
Við þetta tækifæri efnir Jafnréttissjóður til málþings þar sem niðurstöður úr nýjum rannsóknum sem sjóðurinn styrkti á liðnu ári verða kynntar. Kolbeinn Stefánsson og Þóra Kristín Þórsdóttir munu fjalla um kynbundna verkaskiptingu á árinu 2013, Arnar Gíslason um karlavæðingu kvennabaráttunnar, Andrea Hjálmsdóttir um viðhorf unglinga til jafnréttis og verkaskiptingar kynjanna og Andrea G. Dofradóttir um kynbundinn launamun háskólamenntaðra ári eftir útskrift.
Málþingið, sem er öllum opið, hefst kl. 8.10 og lýkur kl. 10. Morgunverður er í boði Jafnréttissjóðs.