Kyn og fræði - Ný þekking verður til

Jafnréttissjóður býður til málþings þar sem kynntar verða niðurstöður rannsókna sem sjóðurinn styrkti 2014 og jafnframt fer fram úthlutun sex nýrra styrkja. Málþingið verður haldið á kvennafrídaginn 24. október 2015 kl. 11-13 í Iðnó.









Á árinu 2005 samþykkti ríkisstjórn Íslands að minnast 30 ára afmælis Kvennafrídagsins með því að stofna sérstakan rannsóknarsjóð, Jafnréttissjóð, til eflingar rannsóknum á stöðu kvenna og karla. Sjóðnum er ætlað að vera framlag og hvatning til þess að hér á landi séu gerðar vandaðar rannsóknir á sviði jafnréttis- og kynjafræða.  Á þeim tíu árum sem liðin eru frá stofnun sjóðsins hefur verið lögð áhersla á rannsóknir á stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði, á áhrifum gildandi löggjafar á sviði jafnréttismála og á síðari árum í vaxandi mæli á samspili kyns og annarra mismununarþátta. Sérstaklega hefur verið horft til þátttöku ungra vísindamanna í rannsóknarverkefnum. 

Sjóðurinn starfar skv. reglum um úthlutun styrkja Jafnréttissjóðs nr. 513/2006. Hann er vistaður í forsætisráðuneyti og skipar forsætisráðherra formann sjóðsins sem nú er Anna Kolbrún Árnadóttir menntunarfræðingur. Aðrir í stjórn sjóðsins eru Jóna Pálsdóttir tilnefnd af mennta- og menningarmálaráðherra og Ingi Valur Jóhannsson tilnefndur af félags- og húsnæðismálaráðherra. Starfsmaður og varaformaður sjóðsins er Hildur Jónsdóttir, sérfræðingur í forsætisráðuneyti.

Í ár er síðasta úthlutun úr sjóðnum í þeirri mynd sem hann hefur verið starfræktur, en gert er ráð fyrir að á næsta ári taki Jafnréttissjóður Íslands við hlutverki hans. Ekki var úthlutað úr sjóðnum á árunum 2009-2011. Rannsóknir sem styrktar hafa verið frá stofnun sjóðsins eru 36 talsins og styrkir Jafnréttissjóðs hafa samtals numið 70,5 mkr. Kynningarefni um rannsóknir sem styrktar hafa verið er að finna á vef forsætisráðuneytis www.for.is.

Dagskrá málþingsins

1.Ávarp forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar 


2.Guðný Gústafsdóttir: Mótsagnir kvenleikans: Kyngervi og þegnréttur á Íslandi 


3.Marta Einarsdóttir: Íslenska ofurfjölskyldan – samræming fjölskyldu og atvinnu. 


4.Guðný Björk Eydal: Hvernig haga pólskir og íslenskir foreldrar atvinnuþátttöku og umönnun barna sinna


5.Arndís Bergsdóttir: Í höftum fjarveru – um hlut kvenna á sýningum íslenskra menningarminjasafna


6.Hildur Jónsdóttir varaformaður Jafnréttissjóðs kynnir styrkveitingar Jafnréttissjóðs 2015. Afhending. 


Boðið verður upp á léttan hádegisverð.

Enginn aðgangseyrir – allir velkomnir.