- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, ávarpaði morgunverðarfund um kynbundin áhrif loftslagsbreytinga, sem haldinn var á Hóteli Sögu þann 24. febrúar sl. Fundurinn var á vegum Alþjóðlegs jafnréttisskóla við Háskóla Íslands (GEST Programme) sem stendur að námskeiðum í Úganda síðar á árinu í því skyni að auka þekkingu og færni fólks til að vinna að verkefnum á sviði jafnréttis og loftslagsbreytinga. Námskeiðið er liður í samstarfi stjórnvalda Úganda annars vegar og Íslands, Noregs og Danmerkur hins vegar um að samþætta jafnréttissjónarmið í aðgerðum landsins til að takast á við loftslagsbreytingar. Þróunarsamvinnustofnun Íslands hefur haft veg og vanda að undirbúningi verkefnisins í Úganda og samskiptum við samstarfsaðila. Námskeiðin verða skipulögð fyrir sérfræðinga úr ýmsum geirum í landinu, s.s. ráðuneytum, stofnunum, félagasamtökum og héraðsstjórnum. Gerð námsefnis og framkvæmd námskeiðanna verður á höndum GEST en umhverfisráðuneytið leggur sérfræðiþekkingu til verkefnisins.
Fundinn sóttu m.a. úgandískir sérfræðingar sem eru hér staddir til að vinna að gerð námsefnisins með íslenskum sérfræðingum á sviði umhverfis-, loftslags- og jafnréttismála. Stefnt er að því að halda þrjú námskeið í mismunandi hlutum Úganda síðar á árinu, það fyrsta í bænum Mbale í austur Úganda um miðjan mars og er gert ráð fyrir um 35 þátttakendum á því.
Þátttaka Íslands í verkefninu er í samræmi við áherslur þess í alþjóðlegu loftslagsviðræðunum undanfarin ár þar sem það hefur sett kynjasjónarmið á oddinn, enda virðist nú ljóst að áhrif loftslagsbreytinga verði meiri á konur en karla, ekki síst í fátækari ríkjum heims.