- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Ný rannsókn Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands á launum karla og kvenna sýnir að kynbundinn launamunur á heildarlaunum mælist nú 16,3% á vinnumarkaðnum í heild. Hann er meiri meðal fólks sem starfar á almennum vinnumarkaði og enn meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæði. Hjá hinu opinbera, það er ríki og sveitarfélögum, mælist ekki marktækur kynbundinn launamunur meðal starfsmanna með grunnskólamenntun og með háskólamenntun, en hjá þeim sem falla í flokkinn framhaldsskólamenntaðir mælist hann umtalsverður. Þessi könnun er sú fyrsta sem endurspeglar vinnumarkaðinn í heild sinni.
Félags- og tryggingamálaráðuneytið fól í vetur Félagsvísindastofnun HÍ að gera launakönnun sem skyldi ná til landsins alls. Frumkvæðið að gerð hennar kom frá ráðgjafahópi félags- og tryggingamálaráðherra um launamun kynja sem er einn þeirra þriggja starfshópa sem skipaðir voru til að gera tillögur um aðgerðir til að draga úr launamun kynja í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Taldi ráðgjafahópurinn nauðsynlegt að gera launakönnun sem næði til landsins alls og endurspeglaði vinnumarkaðinn í heild, en flestar kannanir sem gerðar hafa verið á kynbundnum launamun hafa eingöngu náð til félagsmanna einstakra stéttarfélaga eða starfsmanna tiltekinna atvinnurekenda. Tilgangur könnunarinnar skyldi jafnframt vera að mynda viðmiðunargrundvöll fyrir síðari launakannanir sem þá gætu nýst til að meta árangur aðgerða ríkisstjórnarinnar og þróun hins kynbundna launamunar.
Samkvæmt könnuninni eru konur almennt með 16,3 % lægri heildarlaun en sambærilegir karlar og 16,4% lægri grunnlaun. Þessi kynbundni launamunur lítur mjög misjafnlega út eftir því hvort opinberi geirinn eða einkageirinn er skoðaður og höfuðborgarsvæði eða landsbyggð. Í opinbera geiranum mælist hann aðeins meðal þeirra sem flokkast sem framhaldsskólamenntaðir, en þar eru konur með 22,1% lægri laun en karlar. Sé litið til einkageirans eru konur með 18,3% lægri heildarlaun en karlar og 18,9% lægri grunnlaun. Hinn kynbundni launamunur dreifist ekki jafnt yfir landið. Hann mælist minni á höfuðborgarsvæðinu, þar sem konur eru með 9,3% lægri heildarlaun en karlar, og 12,8% lægri grunnlaun. Staðan er öllu alvarlegri á landsbyggðinni, en þar eru konur eru með 27,5% lægri heildarlaun en karlar og 22,8% lægri grunnlaun. Vegna smæðar úrtaksins var ekki unnt að greina í sundur launamun kynja innan opinbera geirans eftir því hvort litið var til höfuðborgarsvæðis eða landsbyggðar. Tölurnar segja til um hversu hlutfallslega lægri laun kvenna eru en karla þegar þættir eins og vinnutími, menntun, starf, aldur, atvinnugeiri og ábyrgð í starfi eru jafnir. Þá er einnig tekið tillit til þess hvort einstaklingurinn er sjálfstætt starfandi eða launþegi.
Niðurstöður þessarar könnunar benda til að baráttan fyrir launajafnrétti kynja hafi skilað árangri sé litið til starfsmanna ríkis og sveitarfélaga sem eru grunnskólamenntaðir eða háskólamenntaðir. Sambærilegur árangur hefur ekki náðst meðal framhaldsskólamenntaðra. Þá virðist launamunur kynja vera alvarlegri á einkamarkaðnum og vandinn sýnu mestur á landsbyggðinni.
Könnunin var þannig gerð að tekið var 2000 manna úrtak úr þjóðskrá meðal fólks á aldrinum 18-67 ára og bréf sent til þeirra sem lentu í úrtakinu. Gögnum var síðan safnað í gegnum síma á tímabilinu mars til maí í vor, en svarendur greindu frá launum sínum í febrúarmánuði. Svörun var 63% og endurspegluðu svarendur vel vinnumarkaðinn í heild sinni.
Rannsóknina má nálgast hér.