- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Mannréttindaskrifstofa og mannréttindaráð Reykjavíkurborgar hefur gefið út bæklinginn Kynlegar tölur sem kemur nú út í þriðja sinn. Bæklingurinn hefur að geyma tölfræðilegar upplýsingar þar sem varpað er ljósi á ólíka stöðu karla og kvenna eins og hún birtist á ýmsan hátt í borginni og á landinu.
Margt athyglisvert kemur fram í bæklingnum. Sem dæmi má nefna að árið 2012 leituðu 10 karlmenn til Neyðarmóttöku vegna nauðgana en einn árið áður. Konur sem komu á móttökuna 2012 voru 129 en 117 árið áður. Árið 2012 leituðu 241 kona til Stígamóta og 23 karlmenn.
Athygli vekur einnig að stærsti hluti viðtakenda fjárhagsaðstoðar í Reykjavíkurborg eru einhleypir, barnlausir karlar, eða 1.891. Einstæðar konur með börn koma þar á eftir en þær eru 1.002.
Þegar tilefni fangavistar eftir kyni eru skoðuð kemur í ljós að árið 2011 sátu 341 karl í fangelsi en 23 konur, tilefni eru mun margþættari hjá körlum en konum en flestir karlar sitja inni vegna fíkniefnabrota, auðgunarbrota, ofbeldis og kynferðisbrota.
Hlutfall aðspurðra karla sem svöruðu því til að þeir hefðu verslað raftæki og myndavélar á netinu er hærra en kvenna eða 34% á meðan hlutfall aðspurðra kvenna sem sagðist hafa gert það var 11%. Konur eiga þó vinninginn þegar kemur að því að versla föt, skó og íþróttavörur á netinu en það sögðust 53% aðspurðra kvenna hafa gert en 38% karla.
Nokkur munur er á fjölda kjörinna þingmanna annars vegar og þingkvenna hins vegar þegar Reykjavík og landsbyggðin eru borin saman. Í Alþingiskosningunum 2009 voru 12 þingkonur kjörnar í Reykjavík en 10 þingmenn á meðan 26 þingmenn hlutu kosningu í landsbyggðarkjördæmunum en aðeins 15 þingkonur.
Kynlegar tölur 2013