- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Ljósaganga í Reykjavík miðvikudaginn 25. nóvember markar upphaf 16 daga átaksins gegn kynbundnu ofbeldi.
Gangan hefst kl. 19:00 fyrir framan Þjóðmenningarhúsið við Hverfisgötu og lýkur við Sólfarið við Sæbraut.
Dagurinn markar upphaf 16 DAGA ÁTAKS GEGN KYNBUNDU OFBELDI undir yfirskriftinni: Leggðu þitt af mörkum Farðu fram á aðgerðir: Saman getum við bundið enda á ofbeldi gegn konum!
Í tilefni dagsins standa mannréttindasamtök og kvennahreyfingin á Íslandi fyrir Ljósagöngu til að vekja athygli á ofbeldi gegn konum og hvetja til aðgerða. Lagt verður af stað frá Þjóðmenningarhúsi kl. 19:00 og gengið niður að Sólfarinu þar sem Friðarsúlan verður tendruð kl. 19:45.
Í fararbroddi verða kyndilberar sem láta sig málefnið varða, m.a. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, Halldóra Geirharðsdóttir, leikkona, Jón Páll Eyjólfsson, leikskáld, og Þórdís Elva Þorvaldsdóttir Bachmann, höfundur bókarinnar Ofbeldi á Íslandi á mannamáli.
Friðarsúlan er ákall um frið - ákall um heim án ofbeldis. Útbreiddasta ofbeldið á heimsvísu er kynbundið ofbeldi gegn konum og stúlkum. Kynfæralimlesting, kynferðisofbeldi, heiðursmorð og ofbeldi á heimilum eru meðal þess sem milljónir kvenna um allan heim verða fyrir dag hvern. Enda þótt staða íslenskra kvenna sé sterk á mörgum sviðum þá er kynbundið ofbeldi alvarlegt vandamál hér á landi. Árið 2008 leituðu 547 einstaklingar til Stígamóta en frá upphafi samtakanna til ársloka 2008 hafa alls 5,279 manns leitað þar aðstoðar. 530 konur hafa leitað til Kvennaathvarfs á árinu 2009 komur til samtakanna eru frá upphafi um 5800.
Friður ríkir ekki í raun fyrr en búið er að uppræta ofbeldi gegn konum í öllum sínum birtingarmyndum.
Þann 25. nóvember verður slökkt á Friðarsúlunni kl. 19:30 og síðan kveikt á henni aftur kl. 19:45 til að vekja á táknrænan hátt athygli á þeim myrku mannréttindabrotum sem felast í ofbeldi gegn konum - ofbeldi sem þrífst í skjóli kynjamisréttis, skammar og þagnar. Ljós friðarsúlunnar táknar von um frið og minnir okkur á hvað við getum lagt af mörkum hvert og eitt til að uppræta kynbundið ofbeldi.
Saman getum við skapað friðsamlega framtíð!
Segjum JÁ við friði NEI við ofbeldi!
Aðstandendur 16 DAGA ÁTAKS
Aflið-Akureyrarbær-Alnæmisbörn-Alnæmissamtökin á Íslandi-Alþjóðahús-Amnesty International á Íslandi-Barnaheill-Blátt áfram Bríet - félag ungra femínista-Femínistafélag Íslands-Háskólinn á Akureyri-Jafningjafræðsla Hins hússins
Jafnréttisstofa-Jafnréttisráð-Kvenfélagasamband Íslands-Kvennahreyfing Öryrkjabandalags Íslands-Kvennaráðgjöfin Kvennasögusafnið-Kvenréttindafélag Íslands-Leikfélag Akureyrar-Lýðheilsustöð-Lögreglan í Reykjavík Mannréttindaskrifstofa Íslands-Neyðarmóttaka vegna nauðgunar-Prestur innflytjenda-Rauði Kross Íslands-Samtök kvenna af erlendum uppruna-Samtök um kvennaathvarf-Soroptimistasamband Íslands-Stéttarfélag íslenskra félagsráðgjafa-Stígamót-UNICEF á Íslandi-UNIFEM á Íslandi-V-dagssamtökin-Zonta á Íslandi-Þjóðkirkjan
Alþjóðlegt 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi má rekja aftur til ársins 1991. Dagsetning átaksins, frá 25. nóvember, alþjóðlegum baráttudegi gegn kynbundnu ofbeldi, til 10. desember, hins alþjóðlega mannréttindadags, var valin til að tengja á táknrænan hátt kynbundið ofbeldi og mannréttindi. Tímasetningin var einnig valin til að leggja áherslu á mannréttindabrotin sem felast í slíku ofbeldi.
Skilaboð frá Yoko Ono í tilefni Ljósagöngunnar og þess að ljós Friðarsúlunnar 25. nóvember 2009 er tileinkað Alþjóðadegi um afnám ofbeldis gegn konum:
THE WALK OF LIGHT
November 25, 2009 Heal Earth, Heal Air, Heal Women.
It's time for action.
Action is Peace.
Join us in the Walk of Light from wherever you are.
We are together.
We are one.
We have the power to stop the violence and share its joy with all lives on Earth.
I love you!
yoko