Með hinsegin augum - Fyrirlestur í Háskóla Íslands

Föstudaginn 1. febrúar heldur Tiina Rosenberg fyrirlestur í Háskóla Íslands á vegum fyrirlestraraðar Samtakanna ´78, Með hinsegin augum. Fyrirlesturinn nefnist A Queer feminism: The lesbian Feminist Heritage. Tiina er prófessor við Háskólann í Lundi, Svíþjóð.

Hún á að baki fjölda ritverka um leikhús, hinsegin fræði og feminísk fræði. Meðal bóka hennar á sviði kvennafræða og hinsegin fræða má nefna Byxbegär og Queerfeministisk Agenda. Þá hefur hún samið sænska leikhússögu í félagi við fleiri fræðikonur og ritað um leikhús femínista í Svíþjóð. Árið 2005 sendi Tiina frá sér safnritið Könet brinner! – úrval á sænsku úr verkum Judith Butler. Nýjasta bók hennar er L-Word: Where Have All the Lesbians Gone?

Í fyrirlestri sínum fjallar Tiina Rosenberg um sýn sína á þróun hinsegin fræða eftir 1990 og hvernig þau afhjúpa á gagnrýninn hátt viðmið og valdbeitingu gagnkynhneigðarinnar. Hún greinir rætur hinsegin fræða í samkynhneigðum fræðum fyrri ára með sérstakri áherslu á þá lesbísku og femínísku arfleifð sem hinsegin fræði og hinsegin femínismi hafa þegið í fræðilegri nálgun sinni.

Fyrirlesturinn er fluttur í stofu 101 í Odda, Háskóla Íslands, og hefst kl. 12:15 á hádegi. Að þeim loknum gefst áheyrendum kostur á að bera fram fyrirspurnir og taka þátt í stuttum umræðum.

Nánar um fyrirlestrarröðina "Með hinsegin augum" á heimasíðu Samtakanna 78: http://samtokin78.is/?PageID=30&NewsID=2940